Fyrsta áfanga stækkunar Norðfjarðarhafnar að ljúka

Gröfuprammi vinnur að dýpkun í höfninni. Ljósm. Hákon Viðarsson.Fyrsta áfanga jarðvinnu vegna stækkunar Norðfjarðarhafnar lauk um síðustu mánaðamót en síðan hefur verið unnið að nokkrum smærri verkefnum. Það er Héraðsverk sem hefur annast jarðvinnuframkvæmdirnar. Björgun hefur einnig lokið fyrsta áfanga við dýpkun hafnarinnar og hélt dýpkunarskipið Perlan á brott um sl. mánaðamót en gröfuprammi  hefur síðan sinnt ýmsum verkefnum. Lokið er við að dæla um 140 þúsund rúmmetrum af efni í nýja garðstæðið en með færslu garðsins verður höfnin öll rýmri og aðgengilegri fyrir skip. Núverandi garður verður fluttur á vormánuðum og með færslu hans bætast 50 þúsund rúmmetrar við hinn nýja garð. Bæði Héraðsverk og Björgun munu halda áfram framkvæmdum í aprílmánuði næstkomandi.

Um þessar mundir eru að hefjast framkvæmdir við lengingu stálþils togarabryggjunnar en bryggjan verður lengd um 60 metra. Það er fyrirtækið Hagtak sem annast það verkefni og eru verklok áætluð um mánaðamótin apríl-maí.

Samhliða öllum þessum framkvæmdum hefur verið unnið að úrbótum á löndunaraðstöðu fyrir smábáta í höfninni. Guðmundur Guðlaugsson bryggjusmiður frá Dalvík hefur haft með það verkefni að gera og er því að ljúka. Þessi bryggjusmíði er  langt á undan áætlun en henni  átti að vera lokið 15. apríl.

Framkvæmdirnar við höfnina skipta Síldarvinnsluna afar miklu máli en þrengsli í henni hafa verið til mikilla óþæginda enda umferðin mikil. Sem dæmi má nefna að þegar flutningaskip koma til að taka frystar vörur verður oft að gera hlé á löndun í fiskiðjuverið á meðan verið er að koma skipunum inn í höfnina. Þá geta stór flutningaskip einungis siglt inn í höfnina í blíðviðri og jafnvel þarf björgunarbáturinn Hafbjörg að aðstoða lóðsbátinn Vött við að koma þeim að bryggju. Núverandi framkvæmdir koma til með að gjörbreyta allri aðstöðu og verður höfnin bæði rýmri og öruggari að þeim loknum.


Manneldisvinnslan hefur gengið vel á loðnuvertíðinni

Jóna Járnbrá Jónsdóttir og Japaninn K. Tasuta kanna gæði hráefnisins. Ljósm. Smári GeirssonAð sögn Jóns Gunnars Sigurjónssonar yfirverkstjóra í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar hefur manneldisvinnsla gengið vel á yfirstandandi loðnuvertíð. „Loðnan er góð og heppileg til slíkrar vinnslu enda fer allur afli sem að landi berst í hana“, segir Jón Gunnar. „Frá því að veiði hófst á ný í byrjun febrúar hefur vinnslan í fiskiðjuverinu verið samfelld og afköst góð. Ýmist er framleitt á Japan eða Austur-Evrópu – kvensílið fer á Japan en karlinn á Austur-Evrópu. Hingað til hefur engin áta verið í loðnunni en fyrst nú verður dálítið vart við hana. Í fiskiðjuverinu eru nú sex Japanir sem fylgjast með framleiðslunni og gæðum hráefnisins. Þeir eru fulltrúar þriggja kaupenda í Japan“.

Aðspurður segir Jón Gunnar að nú séu síðustu dagar loðnufrystingar á vertíðinni. Hrognafylling loðnunnar er um 22% og gera megi ráð fyrir að hrognavinnsla hefjist í næstu viku.

Nú er verið að landa til vinnslu í fiskiðjuverinu 850 tonnum úr Berki NK og Bjarni Ólafsson AK er á landleið með 650 tonn. 


Nýr Beitir í sína fyrstu veiðiferð

Beitir NK er nú í sinni fyrstu veiðiferð. Ljósm. Guðlaugur Birgisson.Hinn nýi Beitir NK (áður Polar Amaroq) hélt til loðnuveiða í gær. Er þetta fyrsta veiðiferð skipsins undir nýju nafni. Áhöfn Beitis hefur að undanförnu lagt stund á loðnuveiðar á Birtingi NK en honum verður nú lagt að sinni.

Það var í desember sl. sem grænlenska útgerðarfélagið Polar Pelagic festi kaup á norska skipinu Gardar og gekk þáverandi Beitir upp í kaupin. Gardar fékk síðan nafnið Polar Amaroq en eldra skip með því nafni varð eign Síldarvinnslunnar og fékk nafnið Beitir. Síldarvinnslan á þriðjung í grænlenska útgerðarfélaginu Polar Pelagic og annast útgerð á skipi þess.

Stjórn Byggðastofnunar heimsækir fiskiðjuver Síldarvinnslunnar

Stjórn Byggðastofnunar í heimsókn í fiskiðjuverinu. Ljósm. Smári GeirssonByggðastofnun hélt stjórnarfund í Neskaupstað sl. föstudag og notaði tækifærið til að kynna sér atvinnulífið á staðnum. Stjórnin ásamt fylgdarliði heimsótti meðal annars fiskiðjuver Síldarvinnslunnar þar sem hún naut fyrirlesturs um sögu fyrirtækisins og fylgdist með loðnufrystingu. Þegar stjórnina bar að garði var verið að landa loðnu úr Bjarna Ólafssyni AK og frysta hana fyrir Japansmarkað og einnig fyrir austur-evrópskan markað þannig að það var handagangur í öskjunni.