25 þúsund tonnum af makríl landað í Neskaupstað á vertíðinni

Birtingur NK kemur með makríl til löndunar. Ljósm. Sigurður Steinn Einarsson.Um þessar mundir hefur rúmlega 13.000 tonnum af makríl verið landað til vinnslu í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á yfirstandandi vertíð. Megnið af aflanum hafa Beitir NK, Börkur NK og Bjarni Ólafsson AK fært að landi en eins hafa Birtingur NK og Bjartur NK landað makríl til vinnslu. Þá hafa vinnsluskip landað tæpum 12.000 tonnum af frystum makríl í frystigeymslur Síldarvinnslunnar. Af frystiskipunum  hefur Vilhelm Þorsteinsson EA landað mestu en þar á eftir kemur Kristina EA. Þá hefur Barði NK einnig landað frystum makríl í geymslurnar.

Fyrir utan makrílinn hefur töluvert borist af síld á land í Neskaupstað en síld er meðafli á makrílvertíðinni.

14 þúsund tonn á 14 dögum

Í Neskaupstað hefur verið skipað út 14.000 tonnum af frystum makríl á sl. tveimur vikum. Ljósm. Sigurður Steinn Einarsson.Um þessar mundir er verið að skipa 5000 tonnum af frystum makríl um borð í skip sem liggur í Norðfjarðarhöfn. Skipið mun flytja farminn til Afríku. Þar með hafa fjögur flutningaskip lestað 14 þúsund tonn af frystum makríl í höfninni á tveimur vikum. Í upphafi vertíðar höfðu menn nokkrar áhyggjur af erfiðri stöðu á makrílmörkuðum en til þessa hafa þær áhyggjur reynst ástæðulausar.

Börkur er laus við allt tóbak

Hér má sjá Börk NK landa til vinnslu og Bjart NK koma til löndunar. Ljósm: Hákon ViðarssonÞegar Síldarvinnslan festi kaup á Berki NK í febrúarmánuði sl. var tekin ákvörðun um að ekki yrði reykt um borð í skipinu. Nokkrir í áhöfninni þurftu að taka sig á og hætta reykingum og notkun nef- og munntóbaks er ekki til staðar hjá áhöfninni. Börkur er því laus við alla tóbaksnotkun og mættu ýmsar aðrar áhafnir taka sér það til fyrirmyndar.

                Að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra var sérstakt reykherbergi í skipinu þegar það var keypt frá Noregi en það hefur ekki verið notað eftir að Síldarvinnslan eignaðist það. Hjörvar segir eftirfarandi um hvarf tóbaksins úr lífi áhafnarinnar:“ Að mínu mati skiptir þetta miklu máli og þarna fengu þeir fáu sem reyktu gullið tækifæri til að hætta. Þeir gerðu það og sem betur fer hófst ekki notkun á nef- og munntóbaki í staðinn. Þetta er þáttur í því að gera umhverfið um borð sem heilsusamlegast og öll umgengni um skip stórbatnar þegar tóbaksnotkun heyrir sögunni til. Menn losna við reykingalyktina og staðreyndin er sú að allri tóbaksnotkun fylgir mikill sóðasakpur. Ég hef engan heyrt kvarta um borð yfir hvarfi tóbaksins, þvert á móti held ég að allir séu ánægðir með að vera lausir við þennan ófögnuð.“

Birtingur með makríl að vestan

Birtingur NK. Ljósm: Sigurður Steinn Einarsson           
Birtingur NK landaði makríl sem fékkst í grænlenskri lögsögu í Helguvík í lok síðustu viku. Að löndun lokinni hélt hann til veiða úti fyrir Vesturlandi og er nú á landleið til Neskaupstaðar með tæp 400 tonn af góðum makríl. Heimasíðan ræddi við Atla Rúnar Eysteinsson stýrimann í morgun þar sem báturinn var staddur í Bakkaflóadýpi og sagði hann eftirfarandi: „Við fengum þetta í Kolluál í tveimur holum. Þarna var fínasta veiði frá því um klukkan þrjú á daginn og fram til morguns. Makríllinn sem fékkst þarna er mjög góður og líklega stærri en fiskurinn sem fæst fyrir austan. Við munum koma til Neskaupstaðar klukkan þrjú í dag og allur aflinn fer að sjálfsögðu til manneldisvinnslu.“

Í gær hélt Beitir NK til veiða að aflokinni löndun í Neskaupstað og var ákveðið að hann héldi á miðin fyrir vestan land.