Byrjuðum á Rauða torginu og enduðum í Seyðisfjarðardýpinu

Landað úr Berki NK. Ljósm. Hákon ViðarssonBörkur NK kom til löndunar í Neskaupstað í gær með rúmlega 800 tonn af síld. Að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra er um að ræða fína síld en hún er dálítið blönduð makríl og kolmunna. „Við byrjuðum að toga á Rauða torginu en enduðum í Seyðisfjarðardýpinu,“ sagði Hjörvar. „Það virðist ekki vera neitt mikið af síld hér nærri landinu og veiðin er dálítið gloppótt. Það er hins vegar unnt að finna verulega síld fjær landinu. Ég var að frétta að miklu meira væri að sjá austur á 9. gráðu. Annars er ekkert hægt að kvarta, veiðin hefur gengið þokkalega vel til þessa,“ sagði Hjörvar að lokum.

Unnið úr 700-800 tonnum af hráefni á sólarhring

Fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonSíldveiðar úti fyrir Austfjörðum ganga vel. Nú er verið að landa 350 tonnum úr Bjarna Ólafssyni AK í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og hefur Bjarni þá lokið síldveiðum að sinni. Í gær var landað um 700 tonnum úr Berki NK og á undan honum landaði Beitir NK tæplega 800 tonnum. Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu segir að síldin sé stór og góð og sú síld sem landað var úr Berki í gær hafi verið afar falleg. „Síldin er bæði flökuð og heilfryst og við vinnum úr 700-800 tonnum af hráefni á sólarhring,“ sagði Jón Gunnar. „ Þessi makríl- og síldarvertíð hefur gengið alveg einstaklega vel og segja má að hafi verið samfelld vinnsla hjá okkur frá því að vertíðin hófst um miðjan júlí. Stefnt er að því að ljúka veiðum og vinnslu á norsk-íslensku síldinni um næstkomandi mánaðamót eða í byrjun október,“ sagði Jón Gunnar að lokum.


Sigurður Steinn Einarsson ráðinn til Síldarvinnslunnar

Sigurður Steinn EinarssonSigurður Steinn Einarsson sjávarútvegsfræðingur hefur verið ráðinn til starfa hjá Síldarvinnslunni og mun sinna ýmsum sérverkefnum.  Sigurður er fæddur og uppalinn Norðfirðingur og lauk námi í sjávarútvegsfræðum frá Háskólanum á Akureyri sl. vor. Hann er ekki ókunnur Síldarvinnslunni því hann hefur starfað hjá fyrirtækinu flest  sumur frá árinu 2006. Sigurður starfaði við kennslu í Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar sumarið 2013 og gegndi starfi skólastjóra Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar sem ýtt var úr vör sl. sumar.

Síldarvinnslan býður Sigurð velkominn til starfa.

Vinnsluskipin landa makríl hvert á fætur öðru

Frystum makríl landað úr Vilhelm Þorsteinssyni EA. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonSíðustu daga hafa vinnsluskip landað hátt í 3.400 tonnum af frystum makríl í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Heimir Ásgeirsson yfirverkstjóri í frystigeymslunum segir að það sé svo sannarlega nóg að gera hjá starfsmönnunum enda landanir eða útskipanir nánast upp á hvern dag. Lokið var við að landa 500 tonnum úr Vilhelm Þorsteinssyni EA sl. föstudagsmorgun og á sunnudag var 2.200 tonnum landað úr Kristinu EA. Í gær var síðan lokið við að landa 650 tonnum úr Hákoni EA.

Gert er ráð fyrir að Vilhelm Þorsteinsson komi á ný til löndunar  á miðvikudag.

Megnið af afurðunum í frystigeymslunum er skipað um borð í flutningaskip í Norðfjarðarhöfn en eins fer töluvert í gáma sem fluttir eru til útskipunar á Reyðarfirði.