Mindfulness-fyrirlestur

hh-logoKl. 10 í fyrramálið verður boðið upp á Mindfulness-fyrirlestur fyrir starfsfólk Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Fyrirlesturinn mun fara fram á Hótel Hildibrand og mun hann taka eina og hálfa klukkustund. Það er Hamingjuhúsið sem annast fyrirlesturinn en fyrirlesari verður Ásdís Olsen sem hefur sérhæft sig í að fræða um Mindfulness á vinnustöðum.
 
Mindfulness er áhrifarík og hagnýt leið til að hlúa að mannauðnum og styrkja hann, bæta starfsanda og auka árangur fyrirtækja. Fyrir einstaklinga er helsti ávinningurinn af Mindfulness aukin jákvæðni, vellíðan, bætt samskiptahæfni, aukin einbeiting og ríkari hugmyndaauðgi. Fjölmörg fyrirtæki víða um heim hafa tekið Mindfulness í þjónustu sína.
 
Nánari upplýsingar: www.hamingjuhusid.is 

Þvereyrarbiðinni lokið

 Beitir NK á kolmunnamiðunum. Ljósm. Tómas Kárason Beitir NK á kolmunnamiðunum. Ljósm. Tómas KárasonBeitir og Börkur héldu til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni eftir páskahátíðina. Fyrstu dagana leituðu skipin en ekkert var að sjá. Þá var haldið til hafnar á Þvereyri á Suðurey og þar var legið í tæpa viku. Í morgun var hins vegar látið úr höfn enda höfðu borist upplýsingar um að kolmunninn sé að nálgast færeysku lögsöguna en í fyrra fékkst fyrsti aflinn innan hennar 14. apríl. 
 
Heimasíðan sló á þráðinn til Hálfdans Hálfdanarsonar skipstjóra á Beiti í morgun en skipið var þá statt suður af Færeyjum. „Fiskurinn er að fara að ganga inn í lögsöguna. Færeysku skipin voru að trolla við línuna í gær og þetta er alveg að koma,“ sagði Hálfdan. „Veiðin hófst um þetta leyti í fyrra þannig að vart er hægt að segja að tímasetningin komi á óvart. Við erum búnir að liggja í höfn á Þvereyri  rétt eins og við gerðum á sama tíma í fyrra. Þar lágu Börkur og Vilhelm Þorsteinsson auk okkar og Hákon kom þar einnig til hafnar. Íslenskir bátar lágu víðar og biðu kolmunnans. Þannig voru nokkrir í Kollafirði og einn í Fuglafirði. Ég held að einir átta íslenskir bátar hafi legið síðustu dagana í Færeyjum og einir fjórir eða fimm til viðbótar eru nýlega lagðir af stað til veiða. Það er því ljóst að tölunni tólf verður náð strax, en tólf íslenskir bátar mega veiða kolmunnann samtímis innan lögsögunnar. Það hefur verið gott að liggja á Þvereyri. Þar er góð höfn og þar er gott fólk sem vill allt fyrir okkur gera. Þarna talar annar hver maður íslensku. Við erum búnir að fara í marga góða göngutúra um nágrennið þrátt fyrir að veðrið hafi ekki verið neitt sérstakt. Þá hafa ölkrár á staðnum notið góðs af veru okkar hérna. En nú fara veiðar vonandi að hefjast, kvótinn er ríkulegur og næg verkefni framundan,“ sagði Hálfdan að lokum.

Barði og Bjartur lönduðu í gær

 Barði NK með gott karfahol. Ljósm. Hreinn Sigurðsson Barði NK með gott karfahol. Ljósm. Hreinn SigurðssonÍsfisktogarinn Bjartur og frystitogarinn Barði lönduðu báðir góðum afla í Neskaupstað í gær. Bjartur var með 94 tonn sem fengust í Berufjarðarál. Drjúgur hluti aflans, 46 tonn, var ufsi en 31 tonn þorskur og 14 tonn karfi.
 
Barði kom til millilöndunar enda kominn með fullfermi af gullkarfa sem fékkst að mestu á Melsekk. Alls landaði hann 9000 kössum, sem eru 292 tonn upp úr sjó að verðmæti 75 milljónir.
 
Bæði skipin héldu til veiða strax að löndun lokinni.

Aukin umsvif í veiðum og vinnslu á Seyðisfirði

Gullver NS-12. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS-12. Ljósm. Ómar BogasonEftir að Síldarvinnslan festi kaup á ísfisktogaranum Gullver og fiskvinnslustöðinni á Seyðisfirði hafa umsvif bæði á sviði veiða og vinnslu aukist til mikilla muna, en togarinn og fiskvinnslustöðin eru starfrækt undir merkjum Gullbergs ehf. Á fyrstu þremur mánuðum yfirstandandi árs var afli togarans  1086 tonn á meðan hann var 601 tonn á sama tíma ársins 2014 og 761 tonn á sama tíma ársins 2013. Afli Gullvers hefur að miklu leyti farið til vinnslu hjá Gullbergi en hluti aflans hefur verið unninn hjá Útgerðarfélagi Akureyringa og Samherja á Dalvík auk þess sem nokkuð af aflanum, aðallega karfi, hefur verið seldur ferskur á erlenda markaði.
 
Á fyrstu þremur mánuðum ársins komu 737 tonn til vinnslu hjá fiskvinnslustöðinni samanborið við 306 tonn á árinu 2014 og 535 tonn á árinu 2013. Eins og fyrr greinir kom drjúgur hluti hráefnisins frá Gullver en eins kom hráefni frá Bjarti NK og fleiri skipum.
 
Að sögn Ómars Bogasonar hjá Gullbergi er starfsfólkið ánægt með þessa þróun og sama er að segja um Seyðfirðinga almennt. „Vinnan er samfelld og mikil en það var ekki svo áður,“ sagði Ómar. „Staðreyndin er sú að umsvifin á þessu sviði eru meiri nú en þau hafa verið í mörg ár og það skiptir bæði starfsfólkið og sveitarfélagið miklu máli. Það þurfti svo sannarlega að eiga sér stað umskipti á þessu sviði og nú hefur það gerst. Í reyndinni hefur verið skortur á starfsfólki að undanförnu en í síðustu viku og þessari höfum við notið þess að fá reyndar konur úr fiskiðjuverinu í Neskaupstað til að starfa með okkur. Það er hlé á uppsjávarvinnslunni í fiskiðjuverinu um þessar mundir og við njótum góðs af því. Þau umskipti sem orðið hafa bæði varðandi veiðar og vinnslu eru afar mikilvæg og ánægjuleg,“ sagði Ómar að lokum.