Lélegt í ufsa og karfa en nóg af þorski

Bjartur NK kom til löndunar í morgun. Ljósm. Hákon Viðarsson.Ísfisktogarinn Bjartur kom til heimahafnar í Neskaupstað í morgun með um 50 tonna afla og var uppistaðan ufsi og karfi. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að bölvanlega hafi gengið að fiska ufsa og karfa í veiðiferðinni en hins vegar sé auðvelt að veiða þorsk víðast hvar. Í veiðiferðinni var farið allt frá Breiðdalsgrunni og vestur á Kötlugrunn en alls staðar var lítið að hafa af þeim tegundum sem átti að fiska. „Það var eitt gott við þennan túr“ sagði Steinþór,“ það var blíðuveður allan tímann og það er alveg nýtt því veturinn hefur verið þrautleiðinlegur veðurfarslega.“ 

Síðustu túrar Bjarts á undan þessum hafa hins vegar gengið afar vel og hefur hann gjarnan komið að landi með 90-100 tonn og aflinn að meiri hluta til verið þorskur.

Námskeið um rafmagnsöryggi í fiskimjölsverksmiðjunni í Neskaupstað

Frá rafmagnsöryggisnámskeiðinu. Sigurður Friðrik Jónsson lengst til hægri. Ljósm. Guðjón B. Magnússon.Sl. þriðjudag var haldið námskeið um rafmagnsöryggi í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað en með rafvæðingu verksmiðjunnar hafa aðstæður starfsmanna breyst verulega og talin full þörf á að efna til fræðslu um hinar nýju aðstæður.  Í þessu sambandi skal þess getið að eftir að verksmiðjan var að fullu rafvædd er aflnotkun hennar 26MW eða svipað afl og allur Akureyrarbær notar. 

Kennari á námskeiðinu var Sigurður Friðrik Jónsson rafmagnstæknifræðingur og rafveitustjóri álvers ALCOA-Fjarðaáls. Á námskeiðinu var lögð sérstök áhersla á örugg vinnubrögð í kringum háspennubúnað en starfsmenn þurfa að fylgja öryggisstjórnunarkerfi í rekstri slíks búnaðar sem í reynd er gæðakerfi samþykkt af Mannvirkjastofnun. Farið var yfir verklag í kringum háspennubúnað, hættur vegna ljósboga ásamt því að fjallað var almennt um rafmagnsöryggismál. Námskeiðinu var skipt upp þannig að að almennir starfsmenn sátu fyrri hluta þess en síðari hlutann sátu einungis rafvirkjar og vaktformenn.

Guðjón B. Magnússon verksmiðjustjóri segir að námskeiðið hafi heppnast afar vel og verið bæði gagnlegt og fræðandi. „Eftir rafvæðingu verksmiðjunnar eru starfsmennirnir að vinna við aðrar aðstæður en áður og við annan tækjabúnað og það er nauðsynlegt að læra að umgangast þennan nýja búnað þannig að fyllsta öryggis sé gætt“, sagði Guðjón.

Framkvæmdir hafnar við nýbyggingu á hafnarsvæðinu í Neskaupstað

Framkvæmdir hafnar við pökkunarmiðstöð. Ljósm. Smári Geirsson.Í gær hófust framkvæmdir við nýbyggingu sem Síldarvinnslan reisir á hafnarsvæðinu í Neskaupstað. Byggingin sem um ræðir verður 1000 fermetrar að stærð og áföst fiskiðjuverinu. Nýja húsið mun þjóna hlutverki pökkunarmiðstöðvar fiskiðjuversins en þar verður komið fyrir kassavélum og brettavafningsvélum. Full ástæða er til að bæta pökkunaraðstöðuna miðað við núverandi afköst versins en eins er nýja húsið byggt með tilliti til afkastaaukningar sem fyrirhuguð er í framtíðinni.

Það er Haki ehf. sem annast jarðvegsframkvæmdir vegna byggingarinnar en unnið er að samningum við aðra verktaka. Ráðgert er að nýja húsið verði fullbyggt í lok júnímánaðar áður en makríl- og síldarvertíð hefst. 


Beitir og Börkur í höfn í Þvereyri á Suðurey

Frá Þvereyri á Suðurey í FæreyjumKolmunnaskipin Beitir og Börkur liggja nú í höfn á Þvereyri á Suðurey í Færeyjum. Engin kolmunnaveiðiveiði sem heitið getur hefur að undanförnu verið innan færeyskrar lögsögu þar sem íslenskum skipum er heimilt að veiða. Beitir og Börkur héldu til veiða frá Neskaupstað sl. föstudag en hafa legið í höfn frá því að þeir komu til Færeyja. Önnur íslensk skip liggja ýmist í höfn eða eru úti að fylgjast með en láta reka að mestu. Heimasíðan sló á þráðinn til Hálfdans Hálfdanarsonar skipstjóra á Beiti og heyrði í honum hljóðið:“Við liggjum hér í höfn og það fer vel um mannskapinn, hér er sólskin og blíða en því miður lítið að frétta af fiskiríi“, sagði Hálfdan.  „ Við bíðum rólegir eftir því að fiskurinn gangi inn í færeysku lögsöguna. Færeysku skipin eru að mokfiska í skosku landhelginni hér suður af en þau hafa heimild til að veiða þar. Á undanförnum árum hefur verið nokkuð misjafnt hvenær kolmunninn hefur látið sjá sig í miklu magni í færeyskri lögsögu. Í fyrra og hitteðfyrra var komin góð veiði um 10. apríl en stundum hefur þetta gerst síðar. Það skiptir hins vegar máli að bíða hérna því einungis 12 íslensk skip mega veiða samtímis í færeyskri lögsögu og því koma menn hér til að ná sér í númer svo unnt sé að hefja veiðar strax og fiskurinn sýnir sig. Við erðum bara að bíða þolinmóðir, það er ekkert annað í stöðunni“.