Vinnsluskip landa enn norsk-íslenskri síld í Neskaupstað

Frystri síld landað úr Vilhelm Þorsteinssyni EA í gærkvöldi. Ljósm. Hákon ViðarssonVinnsluskipin koma enn reglulega til hafnar í Neskaupstað og landa þar frystri norsk-íslenskri síld. Í gær var landað 500 tonnum úr Vilhelm Þorsteinssyni EA og nú er verið að landa tæpum 2000 tonnum úr Kristinu EA. Afli Kristinu er mestmegnis síld en að hluta til makríll. Von er á Hákoni EA til löndunar á morgun með 750 tonn af síld. Miklar annir eru hjá starfsmönnum frystigeymsla Síldarvinnslunnar bæði við móttöku afla og eins við útskipanir.

Bleik ljós í tankahúsi

Tankahúsið bleiklýst. Ljósm. Hákon ViðarssonOktóber er bleikur í ár eins og undanfarin ár. Bleiki liturinn er hafður í hávegum til að sýna samstöðu í baráttunni gegn krabbameinum hjá konum. Í tilefni af átaki Krabbameinsfélags Íslands gegn þessum vágesti hefur Síldarvinnslan lýst húsið á mjöltönkum fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað með bleiku. Húsið er áberandi og blasir við þegar ekið er inn í bæinn og þegar siglt er inn í höfnina þannig að þeir sem eiga leið hjá eru tryggilega minntir á átaksverkefnið og hve brýnt er að allir taki virkan þátt í baráttunni fyrir bættri heilsu og heilbrigði lífi. 


Börkur með 1400 tonn af síld að vestan – vinnslan gengur vel

Börkur NK að veiðum. Ljósm. Atli Rúnar EysteinssonBörkur NK er með 1400 tonn af íslenskri sumargotssíld á landleið en síldina fékk hann 40-50 mílur vestur af Öndverðarnesi. Gert er ráð fyrir að skipið komi til Neskaupstaðar á milli kl. 8 og 9 annað kvöld. Heimasíðan ræddi við Sturlu Þórðarson skipstjóra um hádegisbil þegar skipið var statt suðvestur af Malarrifi. Lét Sturla vel af sér og sagði að misjafnlega mikið væri að sjá af síld á þessum miðum en hægt væri að fá góð hol, einkum yfir daginn. Börkur fékk aflann í 5 holum í þessari veiðiferð.

Nú er verið að vinna íslenska sumargotssíld í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar sem Beitir kom með að vestan í nótt sem leið. Að sögn Jóns  Gunnars Sigurjónssonar yfirverkstjóra gengur vinnslan vel. Síldin er ýmist flökuð eða heilfryst og er unnið úr um 700 tonnum á sólarhring.

Beitir með fyrsta síldarfarminn að vestan

Beitir NK í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ViðarssonBeitir er á leið til Neskaupstaðar með 1050 tonn af íslenskri sumargotssíld sem fékkst á Flákanum um 40 mílur vestur af Öndverðarnesi. Heimasíðan hafði samband við Tómas Kárason skipstjóra um klukkan tvö í dag en þá var skipið statt við Tvísker í algeru blíðuveðri. Tómas var mjög ánægður með þessa fyrstu veiðiferð vestur fyrir land og taldi fulla ástæðu til bjartsýni hvað varðaði áframhaldandi veiðar. „Við komum á miðin á laugardagsmorgun og vorum lagðir af stað austur rúmum sólarhring síðar þannig að það er engin ástæða til að kvarta,“ sagði Tómas. „Aflinn fékkst í fjórum holum og var talsvert af síld að sjá á meðan við vorum á miðunum. Holin voru stutt; í einu þeirra fengust 320 tonn eftir að togað hafði verið í tvo tíma og tuttugu mínútur og í öðru fengust 370 tonn eftir tvo og hálfan tíma. Síldin sem þarna um ræðir er hin fallegasta og ætti að henta vel til vinnslu“, sagði Tómas að lokum.

Yfirleitt hafa Síldarvinnsluskipin veitt íslenska sumargotssíld í nót inni á Breiðarfirði á seinni árum en nú hefur engin síld fundist þar.

Börkur er kominn vestur og er við veiðar á Flákanum.