Barði NK heldur til veiða eftir slipp

Barði NK. Ljósm. Hákon ErnusonFrystitogarinn Barði NK hefur verið í slipp á Akureyri síðasta mánuðinn. Þar var hefðbundnum slippverkefnum sinnt eins og botnhreinsun og botnmálun. Eins voru botn- og síðulokar teknir upp ásamt skrúfu og stýrisbúnaði. Aðalvélin var einnig tekin upp og tengi á milli gírs og aðalvélarinnar endurnýjað. Fyrir utan þetta var ýmsum smærri viðhaldsverkefnum sinnt. 

Þegar heimasíðan hafði samband við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra klukkan hálf ellefu í morgun sagðist hann vera ánægður með að þessum verkum væri lokið og unnt yrði að halda á sjóinn á ný. „Við erum rétt að fara að sleppa og verkefnið framundan er að veiða karfa, ufsa og grálúðu. Fyrst verður haldið á Vestfjarðamið og vonandi næst þar góður árangur“, sagði Bjarni Ólafur.


Skrifstofustarf

SkrifstofustarfSíldarvinnslan leitar eftir starfsmanni á skrifstofu félagsins í Neskaupstað. Starfið felst í almennum skrifstofu- og bókhaldsstörfum. Almenn tölvuþekking er skilyrði. Vinnutíminn  er frá kl.08:00 til kl.16:00.  Áhugasamir sendi inn ferilskrá á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. . Umsóknarfrestur er til 20. desember.

Aðrar hæfniskröfur sem verða metnar:
  • Menntun
  • Reynsla
  • Tungumálakunnátta
  • Bókhaldskunnátta
  • Þekking á Navision
  • Hæfni í mannlegum samskiptum
Nánari upplýsingar veitir Hákon Ernuson í s.470-7050, starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar hf.

Þrjú skip með um 4800 tonn af kolmunna á leið til Neskaupstaðar

Beitir NK að kolmunnaveiðum. Ljósm. Tómas KárasonBeitir NK, Börkur NK og Bjarni Ólafsson AK hafa að undanförnu verið að kolmunnaveiðum í færeysku lögsögunni. Beitir hélt fyrst til veiðanna og er nú á landleið með nánast fullfermi eða rúmlega 2000 tonn. Börkur er einnig á landleið með 1400 tonn og Bjarni Ólafsson með 1300 tonn.  Tómas Kárason skipstjóri á Beiti sagði í samtali við heimasíðuna að það væri töluvert þolinmæðisverk að fá í skipið. „Við fengum þennan afla í átta holum en það er eitt hol á dag. Við drógum gjarnan í kringum 18 tíma. Aflinn var misjafn; besta holið gaf 450 tonn en það lakasta var undir 200 tonnum. Við vorum gjarnan að fá um 10 tonn á tímann en svo hittum við stundum á góða bletti sem gáfu meira. Við reiknum með að koma til Neskaupstaðar  í fyrramálið. Það er leiðindabræla á leiðinni og við tökum góðan tíma í keyrsluna“.

Börkur og Bjarni Ólafsson hófu veiðar  nokkru á eftir Beiti og hefur árangurinn hjá þeim verið svipaður. Nú spáir leiðindaveðri á veiðislóðinni.


Ísinn reyndist þeim á Polar Amaroq erfiður

Polar Amaroq að loðnuveiðum í ísnum. Ljósm. Ómar Dennis AtlasonGrænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi að aflokinni erfiðri veiðiferð í grænlensku lögsögunni. Aflinn í túrnum var 270 tonn af loðnu og þar af voru 160 tonn fryst. Halldór Jónasson skipstjóri sagði að veiðiferðin hefði gengið heldur erfiðlega. „Ísinn hrakti okkur út úr grænlensku lögsögunni. Hinar suðlægu áttir að undanförnu hafa gert okkur kleift að veiða þar en nú eru vindáttir ekki nægilega hagstæðar og þá rekur ís yfir svæðið. Við urðum varir við loðnu í kantinum norðan við Halann inn í íslensku lögsögunni en þar má ekki trolla. Þarna virtist vera töluverð loðna. Þegar síðan skall á vitlaust veður var ákveðið að halda til lands og að skipið færi í slipp. Við höldum til Hafnarfjarðar í kvöld og þar verður skipið væntanlega í slipp fram í miðja næstu viku. Að því loknu er ráðgert að halda aftur til loðnuveiða þarna norðurfrá og freista gæfunnar.“

Fyrir þessa veiðiferð hafði Polar Amaroq farið í tvo loðnutúra í grænlensku lögsöguna. Hann landaði 1300 tonnum hinn 13. nóvember og  2000 tonnum hinn 21. nóvember.