Síldarvinnslan kaupir Gullberg á Seyðisfirði

Síldarvinnslan kaupir Gullberg á SeyðisfirðiSíldarvinnslan hf. hefur keypt öll hlutabréf í Gullbergi ehf. á Seyðisfirði sem gerir út togarann Gullver NS 12. Samhliða kaupum á togaranum keypti Síldarvinnslan húsnæði og búnað Brimbergs til fiskvinnslu á Seyðisfirði.

Áfram verður gert út frá Seyðisfirði og lögð áhersla á að tryggja áframhaldandi framleiðslustörf tengd sjávarútvegi í byggðarlaginu. Fyrir rekur Síldarvinnslan fiskimjölsverksmiðju á Seyðisfirði. 

Kaupin eru liður í að styðja við starfsemi Síldarvinnslunnar á Austurlandi. Með því að hafa útgerð og vinnslu á sömu hendi er traustari stoðum skotið undir heilsársstörf og atvinnulíf í byggðarlaginu.

Það hefur verið stefna Síldarvinnslunnar að auka við sig bolfiskheimildir og breikka rekstrargrundvöll félagsins. Megin áhersla síðustu áratugi hefur verið á veiðar og vinnslu uppsjávartegunda. Kaupin á Gullbergi eru í takt við áherslu stjórnenda Síldarvinnslunnar að fjölga grunnstoðum í rekstri félagsins. 

Gullver NS 12 er 674 tonna skuttogari, tæplega 50 metra langur og smíðaður í Noregi árið 1983. Aflamark togarans á yfirstandandi fiskveiðiári, 2014-2015, nemur 2.855 þorskígildistonnum.

Kaup þessi eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Nánari upplýsingar veitir
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar
sími: 4707000 / netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.


Síldveiðin byrjar vel að afloknu stuttu hléi

Beitir NK. Ljóm. Hákon Viðarsson Síldveiðiskip Síldarvinnslunnar, Beitir og Börkur, héldu til veiða á föstudagskvöld og á laugardag að afloknu stuttu hléi. Starfsfólk fiskiðjuversins fékk gott helgarfrí og allmargir starfsmenn fyrirtækisins sóttu sjávarútvegssýninguna þannig að hléið nýttist ágætlega.

Beitir kom síðan til hafnar í Neskaupstað í nótt með 900 tonna afla og er hann nánast hrein síld. Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri segir að aflinn hafi fengist í fimm holum í Reyðarfjarðardýpinu 30-50 mílur frá Norðfjarðarhorni. „Þetta verður ekki styttra“, sagði Hálfdan, “og þar að auki er þetta stór og góð síld sem þarna fæst. Holin sem við tókum voru stutt enda er öll áhersla lögð á að koma með sem best hráefni að landi. Seinni part beggja daganna sem við vorum að veiðum fengust mjög góð hol.“

Börkur  er að veiðum á svipuðum slóðum og Beitir var á og hefur fiskað vel. Gert er ráð fyrir að löndun úr honum hefjist strax og löndun lýkur úr Beiti.

Nú er farið að styttast í þessari síldarvertíð þannig að brátt verður farið að hyggja að veiðum á íslenskri sumargotssíld.

Góð síldveiði og helgarfrí í fiskiðjuverinu

Nóg hefur verið að gera við vinnslu síldar í fiskiðjuverinu að undanförnu. Ljósm. Hákon Viðarsson.Lokið var við að landa rúmlega 600 tonnum af síld í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar úr Beiti NK sl. miðvikudag og þá hófst þegar löndun úr Berki NK sem kominn var að landi með rúmlega 1000 tonn. Beitir fékk sinn afla austan við 10. gráðu eða um 130 mílur frá Norðfirði. Á þeim slóðum var ekki sérlega mikið af síld að sjá. Börkur var hins vegar að veiðum á Glettinganesflaki, um 35 mílur frá Norðfirði. Að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki var þar afar góð veiði undir lok túrsins. Sem dæmi fengust liðlega 500 tonn í síðasta holinu en þá var togað í rúmlega eina klukkustund.

Löndun úr Berki lauk í morgun og mun starfsfólk fiskiðjuversins fara í kærkomið helgarfrí þegar það hefur lokið við að þrífa verið hátt og lágt. Gert er ráð fyrir að Beitir haldi til veiða í kvöld og Börkur á morgun þannig að vinnsla hefjist á ný í fiskiðjuverinu strax eftir helgina.

Nú er eftir að veiða um 3.500 tonn af kvóta Síldarvinnslunnar í norsk-íslensku síldinni.


Á milli 40 og 50 starfsmenn Síldarvinnslunnar sækja sjávarútvegssýninguna

Frá Sjávarútvegssýningunni í Smáranum. Ljósm. Karl Rúnar RóbertssonIceFish, íslenska sjávarútvegssýningin, verður formlega opnuð í dag í Smáranum í Kópavogi. Hér er um að ræða elleftu sjávarútvegssýninguna hér á landi og munu um 500 fyrirtæki kynna starfsemi sína og framleiðslu á henni. Í tengslum við sýninguna verða því fyrirtæki sem þótt hefur skara fram úr á sviði sjávarútvegs veitt verðlaun og eins verða haldnar ráðstefnur og kynningafundir sem snerta það efni sem sýningin gerir skil.

Alls munu á milli 40 og 50 starfsmenn Síldarvinnslunnar sækja sýninguna og koma þeir frá öllum starfsstöðvum fyrirtækisins. Hákon Viðarsson starfsmannastjóri segir mikilvægt að starfsmenn fylgist með því nýjasta sem er að gerast innan greinarinnar og sjávarútvegssýningin veiti einstakt tækifæri til þess.