Góð síldveiði þegar viðrar

Síld landað úr Berki NK. Ljósm. Hákon ViðarssonAð undanaförnu hafa lægðir gengið yfir landið og haft sín neikvæðu áhrif á veiðar. Síldveiðiskip Síldarvinnslunnar, Beitir og Börkur, lágu við festar í eina þrjá daga  í síðustu viku en héldu til veiða á  föstudagskvöld. Í stuttu máli sagt gengu veiðar skipanna vel . Beitir kom til löndunar með um 850 tonn aðfaranótt sunnudags og Börkur kom síðan í gær með um 1250 tonn. Fengu skipin aflann á Gerpisflaki um 20-30 mílur frá Norðfjarðarhorni. Mun aflinn vera hrein síld; norsk-íslensk síld í meirihluta en verulegur hluti aflans íslensk sumargotssíld. Að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki virðist síldin alls ekki vera á förum og fáist því stundum býsna góð hol. Norsk-íslenska  síldin sem nú veiðist  er einstaklega myndarleg eða „algjörar bollur“ eins og Hjörvar orðar það.

Afar góðri makríl- og síldarvertíð að ljúka

Jón Gunnar Sigurjónsson verksmiðjustjóri í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Ljósm: Hákon ViðarssonNú fer að líða að lokum yfirstandandi makríl- og síldarvertíðar. Í tilefni af því hafði heimasíðan samband við Jón Gunnar Sigurjónsson verksmiðjustjóra í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og spurðist fyrir um hvernig vertíðin hefði verið. „Vertíðin hefur verið einstaklega góð“, sagði Jón Gunnar,“ veiðin hefur verið samfelld og vinnslan gengið vel. Frá því að vertíðin hófst um miðjan júlí hefur enginn dagur fallið niður í fiskiðjuverinu vegna hráefnisskorts. Veður hefur verið gott má segja í allt sumar og september var einstaklega góður þannig að skipin hafa getað stundað veiðar við góðar aðstæður nánast hvern einasta dag.“

Að sögn Jóns Gunnars hófst vertíðin í sumar hálfum mánuði seinna en í fyrra og vertíðin í fyrra hálfum mánuði seinna en árið 2012. „Þetta er gert til þess að fá betra hráefni, því lengur sem líður á sumarið því betra verður hráefnið, bæði makríllinn og síldin. Framan af vertíð er öll áhersla lögð á að fiska makríl og þegar líður á sumarið fæst hreinni makríll; þá er hann ekki eins síldarblandaður. Um miðjan september var makrílkvótinn að mestu búinn og þá sneru menn sér að síldinni af krafti. Síldin sem við höfum fengið er stór og fín og á þessum tíma er hún miklu betra hráefni en hún hefði verið fyrr í sumar. Við erum um þessar mundir að vinna úr 700-800 tonnum af síld á sólarhring og vinnslan hefur gengið eins og í sögu.“

Jón Gunnar segir að ekki sé unnt að vera annað en sallaánægður með vertíðina, hún hafi vart geta gengið betur. Gera má ráð fyrir að vinnslu á norsk-íslenskri síld muni ljúka í næstu viku og þá verði farið að undirbúa vinnslu á íslenskri sumargotssíld.

Síldarvinnslan kaupir Gullberg á Seyðisfirði

Síldarvinnslan kaupir Gullberg á SeyðisfirðiSíldarvinnslan hf. hefur keypt öll hlutabréf í Gullbergi ehf. á Seyðisfirði sem gerir út togarann Gullver NS 12. Samhliða kaupum á togaranum keypti Síldarvinnslan húsnæði og búnað Brimbergs til fiskvinnslu á Seyðisfirði.

Áfram verður gert út frá Seyðisfirði og lögð áhersla á að tryggja áframhaldandi framleiðslustörf tengd sjávarútvegi í byggðarlaginu. Fyrir rekur Síldarvinnslan fiskimjölsverksmiðju á Seyðisfirði. 

Kaupin eru liður í að styðja við starfsemi Síldarvinnslunnar á Austurlandi. Með því að hafa útgerð og vinnslu á sömu hendi er traustari stoðum skotið undir heilsársstörf og atvinnulíf í byggðarlaginu.

Það hefur verið stefna Síldarvinnslunnar að auka við sig bolfiskheimildir og breikka rekstrargrundvöll félagsins. Megin áhersla síðustu áratugi hefur verið á veiðar og vinnslu uppsjávartegunda. Kaupin á Gullbergi eru í takt við áherslu stjórnenda Síldarvinnslunnar að fjölga grunnstoðum í rekstri félagsins. 

Gullver NS 12 er 674 tonna skuttogari, tæplega 50 metra langur og smíðaður í Noregi árið 1983. Aflamark togarans á yfirstandandi fiskveiðiári, 2014-2015, nemur 2.855 þorskígildistonnum.

Kaup þessi eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Nánari upplýsingar veitir
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar
sími: 4707000 / netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.


Síldveiðin byrjar vel að afloknu stuttu hléi

Beitir NK. Ljóm. Hákon Viðarsson Síldveiðiskip Síldarvinnslunnar, Beitir og Börkur, héldu til veiða á föstudagskvöld og á laugardag að afloknu stuttu hléi. Starfsfólk fiskiðjuversins fékk gott helgarfrí og allmargir starfsmenn fyrirtækisins sóttu sjávarútvegssýninguna þannig að hléið nýttist ágætlega.

Beitir kom síðan til hafnar í Neskaupstað í nótt með 900 tonna afla og er hann nánast hrein síld. Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri segir að aflinn hafi fengist í fimm holum í Reyðarfjarðardýpinu 30-50 mílur frá Norðfjarðarhorni. „Þetta verður ekki styttra“, sagði Hálfdan, “og þar að auki er þetta stór og góð síld sem þarna fæst. Holin sem við tókum voru stutt enda er öll áhersla lögð á að koma með sem best hráefni að landi. Seinni part beggja daganna sem við vorum að veiðum fengust mjög góð hol.“

Börkur  er að veiðum á svipuðum slóðum og Beitir var á og hefur fiskað vel. Gert er ráð fyrir að löndun úr honum hefjist strax og löndun lýkur úr Beiti.

Nú er farið að styttast í þessari síldarvertíð þannig að brátt verður farið að hyggja að veiðum á íslenskri sumargotssíld.