Bjartur landar eftir brælutúr

Ísfisktogarinn Bjartur NK kom til Neskaupstaðar í morgun að afloknum brælutúr. Aflinn er um 65 tonn og er uppistaða hans þorskur. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að helst hafi verið  veitt á Grunnfætinum og Litladýpi en undir lok túrsins hafi verið farið norður undir Reyðarfjarðardýpi. „Veðrið var hundleiðinlegt,“ sagði Steinþór, „bölvaðar umhleypingar og leiðindi“. Að sögn skipstjórans er gert ráð fyrir að Bjartur haldi á ný til veiða um hádegi á morgun og landi næstkomandi þriðjudag. Það verður væntanlega síðasti túr skipsins fyrir jól.

Landað úr Bjarti NK. Ljósm. Hákon Ernuson

Jólahnossgæti frá Haraldi Jörgensen og félögum

Haraldur Jörgensen með niðurskorna síld. Ljósm. Hákon Ernuson
Haraldur Jörgensen með niðurskorna síld. Ljósm. Hákon Ernuson

Jólasíld Síldarvinnslunnar er orðin ómissandi hluti jólahátíðarinnar hjá starfsmönnum og velunnurum fyrirtækisins. Að mati flestra sem hafa smakkað jólasíldina kemst engin önnur síld í hálfkvisti við hana. Það er Haraldur Jörgensen eða Halli Kalla Jör sem stjórnað hefur framleiðslu jólasíldarinnar um áratuga skeið og hefur hann notið aðstoðar reyndra manna á borð við Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóra fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar. Síldin er framleidd í takmörkuðu magni ár hvert og einungis ætluð til að gleðja og seðja starfsmennina og þá sem eru í mestum tengslum við fyrirtækið.

Að sjálfsögðu eru þær aðferðir sem notaðar eru við framleiðslu síldarinnar leyndarmál en þó fékkst heimild til að greina í grófum dráttum frá framleiðsluferlinum. Allt byrjar þetta á því að gæðasíld er skorin í hæfilega bita en það er gert um 10. október ár hvert. Þegar skurði er lokið er síldin sett í kör með saltpækli og þar er hún höfð í um það bil einn sólarhring. Þá er hún tekin úr körunum og sett í tunnur þar sem hún liggur í ediki í ákveðinn tíma. Loks er hún látin liggja í sykurlegi og er magn sykursins algert lykilatriði varðandi það hvernig til tekst. Lokaþáttur framleiðsluferilsins felst í því að síldin er tekin úr sykurleginum og sett í fötur ásamt lauk og tilheyrandi kryddi. Þegar síldin hefur legið í fötunum í nokkra daga er hún tilbúin til neyslu.Jólasíldin komin í fötur. Ljósm. Hákon Ernuson
Jólasíldin komin í fötur. Ljósm. Hákon Ernuson

Allur þessi framleiðsluferill byggir á mikilli þekkingu og næmri tilfinningu. Allar tímasetningar skipta höfuðmáli og grundvallaratriði er síldin fái að liggja nægilega lengi í hverjum legi fyrir sig svo hið eina rétta jólabragð náist. Þegar kemur að lokastigum framleiðsluferilsins eru kallaðir til útvaldir menn til að smakka framleiðsluna og leggja dóm á hvernig til hefur tekist. Stundum eru gerðar viðbótarráðstafanir til að ná fram þeim eðalgæðum sem sóst er eftir.

Að undanförnu hefur verið lögð áhersla á að merkimiðinn á síldarfötunum sé með jólalegri mynd af athafnasvæði eða skipum Síldarvinnslunnar. Ef einhver á góða slíka mynd og er tilbúinn að leyfa notkun hennar á síldarfötur er viðkomandi beðinn um að hafa samband við Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóra í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar.

Guðmundur Sigurjónsson hefur kvatt

Guðmundur Sigurjónsson í tækjaklefa hraðfrystihúss Síldarvinnslunnar árið 1983. Tækjaklefinn var hans ríki í árafjöld. Ljósm. Vilberg Guðnason.Guðmundur Sigurjónsson er látinn, níræður að aldri. Hann var Norðfirðingur í húð og hár, fæddur 15. september 1924. Guðmundur starfaði lengst af við fiskvinnslu hjá Samvinnufélagi útgerðarmanna og síðar hjá Síldarvinnslunni hf. Í nokkur ár fékkst hann þó við rekstur bókabúðar og eins sinnti hann um tíma starfi framkvæmdastjóra félagsheimilisins Egilsbúðar.

Baráttan fyrir bættum hag verkalýðsins var helsta hugðarefni Guðmundar frá unga aldri. Hann gegndi ýmsum störfum innan verkalýðshreyfingarinnar og var meðal annars formaður Verkalýðsfélags Norðfirðinga á árunum 1951-1953 og varaformaður árum saman. Þá átti hann einnig um tíma sæti í stjórn Alþýðusambands Austurlands. Einnig sótti Guðmundur fjölmörg ASÍ-þing  og sinnti margvíslegum öðrum verkefnum fyrir hönd stéttarsystkina sinna. Fyrir utan verkalýðsmálin helgaði hann sig málefnum náttúruverndar og bindindismálum.

Guðmundur var einlægur sósíalisti alla tíð og aðhylltist reyndar stalínisma. Hann trúði á sovétkerfið og skipti ekki um skoðun í þeim efnum þó Sovétríkin féllu. Hann var af þessari ástæðu yfirleitt nefndur Guðmundur Stalín og við uppnefninu gekkst hann stoltur.

Alla tíð fylgdist Guðmundur náið með þróun atvinnulífsins í Neskaupstað og málefni sem tengdust Síldarvinnslunni voru honum hugleikin. Hann bar mikla umhyggju fyrir fyrirtækinu enda hefur Síldarvinnslan lengi verið kjölfesta atvinnulífsins í bænum og velgengni þess hefur styrkt byggðarlagið og eflt hag íbúanna.

Útför Guðmundar fer fram frá Norðfjarðarkirkju laugardaginn 6. desember kl. 11.00.

Barði NK heldur til veiða eftir slipp

Barði NK. Ljósm. Hákon ErnusonFrystitogarinn Barði NK hefur verið í slipp á Akureyri síðasta mánuðinn. Þar var hefðbundnum slippverkefnum sinnt eins og botnhreinsun og botnmálun. Eins voru botn- og síðulokar teknir upp ásamt skrúfu og stýrisbúnaði. Aðalvélin var einnig tekin upp og tengi á milli gírs og aðalvélarinnar endurnýjað. Fyrir utan þetta var ýmsum smærri viðhaldsverkefnum sinnt. 

Þegar heimasíðan hafði samband við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra klukkan hálf ellefu í morgun sagðist hann vera ánægður með að þessum verkum væri lokið og unnt yrði að halda á sjóinn á ný. „Við erum rétt að fara að sleppa og verkefnið framundan er að veiða karfa, ufsa og grálúðu. Fyrst verður haldið á Vestfjarðamið og vonandi næst þar góður árangur“, sagði Bjarni Ólafur.