Barði NK – síðasta skip að landi fyrir hátíðar

 Barði NK með gott karfahol. Ljósm. Hreinn SigurðssonFrystitogarinn Barði NK kom til hafnar í Neskaupstað í morgun og er hann síðasta skip Síldarvinnslunnar til að ljúka veiðum fyrir jól.  Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri sagði að þetta hefði verið heldur strembin veiðiferð. „ Það voru óvenju miklar og vondar brælur eins og sést á því að við vorum 4-5 daga frá veiðum í þessari 18 daga veiðiferð“, sagði Bjarni Ólafur. Verðmæti aflans í veiðiferðinni er 93 milljónir og er uppistaða aflans gullkarfi og ufsi og eins var nokkuð veitt af þorski.

Barði mun væntanlega halda á ný til veiða um hádegi 3. janúar. 


40 ár liðin frá snjóflóðunum í Neskaupstað

Rústir síldarverksmiðjunnar eftir snjóflóðið 20. desember 1974. Ljósmynd í eigu Skjala- og myndasafns NorðjarðarFöstudagurinn 20. desember 1974 er án efa mesti áfalladagurinn í sögu Síldarvinnslunnar og Neskaupstaðar. Þennan dag gengu Norðfirðingar til starfa sinna eins og venjulega og engan óraði fyrir hvað hann bæri í skauti sínu. Reyndar voru óvenju fáir við störf hjá Síldarvinnslunni þennan dag. Vegna jólaanna og óveðurs hafði verið ákveðið að vinna ekki þann fisk sem beið vinnslu í fiskvinnslustöðinni þennan dag og því voru einungis um 20 manns þar við störf í stað 100, þar af um þriðjungur smiðir og viðgerðarmenn. Um þetta leyti voru að jafnaði 10 manns við störf í síldarverksmiðjunni en þennan dag voru þeir einungis 4 meðal annars vegna þess að hluti starfsmannanna vann að viðgerðum á íbúðarhúsi í kaupstaðnum.

Það var svo sannarlega lán í óláni hve fáir voru við störf í atvinnufyrirtækjum Síldarvinnslunnar þegar ógæfan dundi yfir; tvö snjóflóð féllu með stuttu millibili og skildu eftir tortímingu og dauða.

Fyrra flóðið féll kl. 13.47. Það skall á síldarverksmiðjunni og áföstum mjölgeymsluhúsum og gereyðilagði þau ásamt smærri húsum sem stóðu norðan við verksmiðjuna. Þá braut flóðið í spón tvö starfsmannahús sem stóðu norðan við fiskvinnslustöðina og olli miklum skemmdum á fiskvinnslustöðinni. Síðara flóðið féll um kl. 14 nokkru utar. Eyðilagði það húsakost tveggja fyrirtækja, Steypusölunnar og Bifreiðaþjónustunnar og eitt íbúðarhús að auki, svonefnt Mánahús. Í hlíðinni ofan við síldarverksmiðjuna voru lýsis- og olíugeymar sem fyrra flóðið hreif með sér. Í olíutanki sem flóðið ruddi burt voru 900 lestir af svartolíu sem dreifðist um allstórt svæði auk þess sem töluvert magn fór í sjóinn. Olían olli mikilli mengun og verulegum vandræðum við björgunarstörf.

Þegar eftir flóðin hófust björgunaraðgerðir. Auk björgunarfólks frá Neskaupstað tóku sveitir sjálfboðaliða frá nágrannabyggðum þátt í aðgerðunum. Fyrst var öll áhersla lögð á að leita þeirra sem lent höfðu í flóðinu og var sex mönnum bjargað á lífi en átta höfðu bjargað sér af eigin rammleik. Einum manni var bjargað eftir að hann hafði legið í þröngri þró undir snjófargi í 20 tíma. Fljótlega kom í ljós að alls höfðu tólf manns týnt lífi í snjóflóðunum, þar af voru sjö fastir starfsmenn Síldarvinnslunnar. Það ríkti sorg á öllu landinu vegna þessa voðaatburðar.

Segja má að strax eftir að hreinsunarstarfi eftir snjóflóðin lauk hafi verið hafist handa við endurreisn atvinnulífsins í Neskaupstað. Þeirri sögu verða ekki gerð skil hér.

Á morgun, laugardaginn 20. desember, verður kyrrðarstund haldin í Norðfjarðarkirkju og hefst hún kl. 15. Þá verður þess minnst að 40 ár eru liðin frá því að snjóflóðin féllu. Að kyrrðarstundinni lokinni, eða kl. 16, verður opið hús í Egilsbúð í boði Fjarðabyggðar. Þar mun forseti bæjarstjórnar flytja ávarp og eins verður þar hluti ljósmyndasýningarinnar Flóðið til sýnis. Þá munu gestir geta skoðað uppdrætti að minningarreit sem opnaður verður almenningi á næsta ári en reitnum verður komið upp til minningar um þá sem látið hafa lífið í snjóflóðum á Norðfirði.


Jólatrésskemmtun Síldarvinnslunnar 2014

Frá jólatrésskemmtun Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon ErnusonHin hefðbundna jólatrésskemmtun Síldarvinnslunnar verður haldin í Egilsbúð þriðjudaginn 30. desember og hefst kl. 16. Öllum börnum og foreldrum í Fjarðabyggð er boðið á skemmtunina en víst er að þangað munu koma jólaveinar með hollt og gott í poka. Eins og venjulega verður dansað í kringum jólatré við undirleik og söng. Hópur nemenda úr 9. bekk Nesskóla mun leiða sönginn.

Fyrir mörg börn er jólatrésskemmtunin fastur liður í jólahaldinu og fullvíst er að þau munu skemmta sér vel í Egilsbúð hinn 30. desember.

Skipin koma til hafnar fyrir jólahátíðina

 Skipin komin í höfn fyrir jólin. Ljósm. Hákon ErnusonSkip Síldarvinnslunnar koma þessa dagana til hafnar í Neskaupstað fyrir jólahátíðina. Beitir NK hefur reyndar ekki haldið til veiða frá því hann landaði kolmunnafarmi úr færeysku lögsögunni í byrjun desembermánaðar. Börkur NK kom til hafnar í morgun en hann hefur verið í Færeyjum að undanförnu þar sem unnið hefur verið að því að koma fyrir búnaði til að dæla afla um borð frá skut. Framkvæmdum við skutdælingarbúnaðinn er þó ekki lokið. Börkur hélt til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni og kom með 420 tonn til löndunar. „Við fengum veður til veiða í rétt tæpan sólarhring og gátum tekið tvö hol“, sagði Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri. „Það hefur svo sannarlega verið óþverraveður í Færeyjum rétt eins og hér heima. Við þurftum aftur að halda til hafnar í Færeyjum að afloknum veiðum og biðum þar í tæpa tvo sólarhringa eftir veðri til að sigla heim“, sagði Hjörvar.

Ísfisktogarinn Bjartur NK kom til hafnar á sunnudagsmorgun undan veðri. Aflinn var 37 tonn en skipið hafði einungis verið um sólarhring að veiðum. Aflanum var landað í gær. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að nú séu menn uppteknir við að skreyta jólatré og búa sig undir hátíðarnar. Frystitogarinn Barði er enn að veiðum og er reiknað með að hann komi til hafnar 22. desember. Theodór Haraldsson stýrimaður sagði í samtali við heimasíðuna að ótíðin að undanförnu hefði svo sannarlega sett strik í reikninginn. „Við erum búnir að vera 15 daga í veiðiferðinni til þessa en höfum einungis verið 8 daga að veiðum. Mikill tími hefur farið í að bíða af sér óveður og síðan að sigla á svæði þar sem líklegt er að unnt sé að veiða. Við erum búnir að fá 210 tonn og er aflinn að uppistöðu til gullkarfi og ufsi. Nú erum við í Seyðisfjarðardýpinu og erum að kanna með ufsa og grálúðu,“ sagði Theodór.

Grænlenska skipið Polar Amaroq kom til Neskaupstaðar í morgun. Halldór Jónasson skipstjóri sagði að þeir hefðu haldið frá Hafnarfirði að afloknum slipp sl. sunnudag og siglt norður fyrir land. Þeir hefðu svipast um eftir loðnu en ekkert séð enda veður vægast sagt óhagstætt. Gert er ráð fyrir að Polar Amaroq muni liggja á Reyðarfirði yfir hátíðarnar. „Nú fáum við gott frí og söfnum kröftum fyrir komandi loðnuvertíð“, sagði Halldór.