26,4 km af pönnum á sólarhring

Loðnan er fryst í pönnum eins og sjást á myndinni. Ljósm. Hákon ViðarssonÁ Tæknidegi fjölskyldunnar sem haldinn var í Verkmenntaskóla Austurlands sl. laugardag var Síldarvinnslan með sýningarbás eins og fjölmörg önnur fyrirtæki og stofnanir. Í bás Síldarvinnslunnar voru veittar margvíslegar upplýsingar um starfsemi fyrirtækisins og birtust þær bæði á veggspjöldum og eins í lifandi myndum sem sýndar voru. Á meðal upplýsinganna mátti sjá eftirfarandi staðreyndir um starfsemi fiskiðjuversins í Neskaupstað:
  • -Í fiskiðjuverinu eru fryst 550 t af loðnu á sólarhring (heilfryst í pönnur)
  • -550 t af loðnu eru um 25 milljónir fiska
  • -550 t af loðnu fara í um 44.000 pönnur
  • -Ef 44.000 pönnum er raðað enda við enda er lengdin 26,4 km eða sambærileg vegalengdinni frá miðbæ Neskaupstaðar til Eskifjarðar


Börkur á landleið með 1560 tonn af íslenskri síld – kolmunnaveiðar næst á dagskrá

Börkur NK. Ljósm. Hákon ViðarssonBörkur NK er á landleið með 1560 tonn tonn af íslenskri sumargotssíld og er væntanlegur til Neskaupstaðar seinni partinn á morgun. Heimasíðan hafði samband við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra rétt fyrir hádegi í dag en skipið var þá nýkomið fram hjá Þorlákshöfn. Hjörvar sagði að veiðin hefði gengið vel í túrnum og aflinn hefði fengist í fjórum holum. „Þetta er flott síld og það gekk vel að ná í hana“, sagði Hjörvar. Stærsta holið gaf 530 tonn en við tókum það í gærdag. Veiðisvæðið var djúpt úti í Kolluál og upp í Wilson‘s Corner en svo nefnist suðvesturhorn Látragrunns“.

Hjörvar sagði að síldarvertíðin hefði gengið vel en nú væri síldarkvóti Síldarvinnslunnar að verða uppurinn. „Þetta er síðasti túrinn okkar á þessari vertíð og nú á að fara að gefa kolmunnanum gaum. Í nóvember og desember í fyrra var kolmunnaveiði í færeysku lögsögunni og stefnan verður sett þangað. Við þyrftum að ná einhverjum kolmunna áður en árið kveður“, sagði Hjörvar að lokum.

Bjartur í biliríi

Bjartur NK í höfn. Ljósm. Hákon ViðarssonUpp úr hádegi í dag kom ísfisktogarinn Bjartur til hafnar í Neskaupstað að aflokinni heldur erfiðri sjóferð. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri sagði að þrennt hefði einkennt veiðiferðina; lítið fiskirí, bræla og bilirí. „Stundum er lífið svona til sjós, það er ekki alltaf dans á rósum“, sagði Steinþór. „Það var heldur lélegt fiskirí framan af og veðrið var bölvað. Við þurftum til dæmis að halda sjó samfellt í eina 18 tíma. Þegar við svo loksins vorum komnir í þokkalegan fisk bilaði vélin í skipinu. Vélin tók að hita sig og  þá var ekki annað að gera en að halda til lands og þangað var siglt á hálfum hraða. Þrátt fyrir óhagstætt veður og fiskileysi lengst af náðum við einum 70 tonnum og er uppistaða aflans þorskur og ufsi. Nú verður vélin skoðuð og vonandi finna menn fljótt út úr því hvað er að svo við getum haldið til veiða á ný hressir í bragði“, sagði Steinþór að lokum.

Hörkusíldveiði vestsuðvestur af Öndverðarnesi

Beitir NK að landa. Ljósm. Hákon ViðarssonBeitir NK er á landleið með 1245 tonn af íslenskri sumargotssíld sem fékkst um 65 mílur vestsuðvestur af Öndverðarnesi. Hann er væntanlegur til löndunar í Neskaupstað í fyrramálið, en siglt er norður fyrir land vegna slæms veðurútlits suður af landinu. Haft var samband við Tómas Kárason skipstjóra um tíuleytið í morgun þegar skipið var komið rétt austur fyrir Hornbjarg. Tómas lét vel af veiðiferðinni og sagði að mikið hefði verið að sjá á veiðislóðinni þó torfurnar hefðu gefið misjafnlega mikið. „Túrinn gekk afar vel í alla staði og við fengum góð hol“, sagði Tómas. Aflinn fékkst í fjórum holum og tvö þeirra voru afar góð. Eitt holið gaf 550 tonn eftir að togað hafði verið í klukkutíma og annað um 300 tonn eftir að togað hafði verið í tvo tíma. Að auki fengum við 220 tonn gefins hjá Vilhelm Þorsteinssyni EA. Við toguðum í gegnum sömu torfuna og Vilhelm en  þeir fengu heldur meiri afla en æskilegt var fyrir vinnsluna um borð þrátt fyrir stutt hol og nutum við góðs af því. Allt gengur þetta út á að vinna síldina sem ferskasta og mikilvægt er að hún bíði ekki lengi áður en hún er unnin“.

Nú líður að lokum veiðanna á íslensku síldinni hjá Síldarvinnsluskipunum en vertíðin hefur gengið afar vel. Börkur NK er á miðunum og var kominn með 800 tonn þegar haft var samband við skipið í morgun.