Umhverfishópur Síldarvinnslunnar stóð sig vel

Umhverfishopur

Hluti umhverfishóps Síldarvinnslunnar í vettvangsheimsókn við munna Norðfjarðarganga í Fannardal

Umhverfishópur Síldarvinnslunnar lauk störfum nýverið og hefur skilað góðu verki. Hópurinn hóf að sinna verkefnum sínum um mánaðamótin maí-júní og hefur unnið kappsamlega í sumar. Í fyrstu voru 10 ungmenni í hópnum en þegar hópurinn var fjölmennastur taldi hann 15 ungmenni af báðum kynjum. Sigfús Sigfússon stýrði starfsemi hópsins eins og hann hefur reyndar gert síðustu sumur.

Að sögn Sigfúsar eru ávallt næg verkefni fyrir umhverfishópinn. Hann sinnti tiltekt á athafnasvæði Síldarvinnslunnar auk þess sem hann fékkst við hreinsun og snyrtingu af öllu tagi. Það var rakað, sópað, blettað, málað, slegið og unnið í lóðum svo eitthvað sé nefnt. Að sögn Sigfúsar voru ungmennin í hópnum einstaklega dugleg, áhugasöm og sinntu öllum verkum af metnaði. „Það ríkti góður andi innan hópsins og samviskusemi einkenndi hann. Krakkarnir voru jákvæðir og vinnusamir og allt gekk eins og í sögu,“ segir Sigfús.

Árangurinn af störfum umhverfishópsins er mjög sýnilegur og er vitnisburður um þá auknu áherslu sem Síldarvinnslan leggur á umhverfismál. „Staða umhverfismála á athafnasvæði fyrirtækisins hefur aldrei verið betri, en auðvitað má alltaf finna ný verkefni sem þyrfti að sinna,“ segir Sigfús.

Veiðar og vinnsla á makríl hefur gengið vel – mikil síld úti fyrir Austfjörðum

               Beitir kolmunna april 2015 HE

Beitir NK kemur til löndunar. Ljósm: Hákon Ernuson

Makrílvertíðin hefur gengið vel til þessa. Skipstjórarnir á Beiti og Berki eru sammála um að mikið hafi verið af makríl á þeim miðum sem þeir hafa helst sótt á og almennt hafi veiði gengið vel þó einstaka sinnum hafi hún dottið niður tímabundið. Beitir NK kom til Neskaupstaðar sl. föstudag og landaði 880 tonnum í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar. Tómas Kárason skipstjóri á Beiti sagði að túrinn hefði gengið einstaklega vel: „Við fengum þessi 880 tonn í tveimur holum og drógum einungis í fjóra tíma í hvort sinn. Þetta var hreinn makríll og stór og fallegur fiskur, 470 grömm að meðaltali. Við höfum að undanförnu verið að veiða norðaustur úr Hvalbak og það hefur oftast verið mikið að sjá þó komi daprir dagar af og til. Vertíðin hefur gengið býsna vel hjá okkur og öðrum skipum sem landa í Neskaupstað. Löndunarbið er algeng og og einnig er algengt að skipin haldi ekki strax til veiða að löndun lokinni. Þegar við komum í land var verið að landa úr Bjarna Ólafssyni AK og Margrét EA var komin til löndunar áður en lokið var við að landa úr Beiti,“ sagði Tómas.

               Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki tekur undir með Tómasi og segir makrílvertíðina hafa verið góða hvað veiðarnar varðar. Börkur kom til Neskaupstaðr í nótt með 680 tonn sem fengust í fimm holum austur úr Hvalbak. „Það er nægur makríll á þessum miðum og alls ekki minna en í fyrra, hins vegar er svolítið annað munstur á þessu til dæmis vegna þess að hitaskilin liggja öðruvísi. Í túrnum byrjuðum við að taka tvö hol og gerðum síðan hlé á veiðum en tókum svo þrjú hol til viðbótar áður en haldið var í land. Veiðarnar taka mið af afköstum vinnslunnar,“ sagði Hjörvar.

 Bæði Tómas og Hjörvar gátu þess að mikla síld hefði verið að sjá út af Austfjörðum að undanförnu. „Við höfum séð mikla síld í Norðfjarðar- og Seyðisfjarðardýpi og reyndar víðar, „ sagði Tómas. „Athyglisvert er að makrílaflinn er ekki eins síldarblandaður eins og oft hefur verið og afli okkar á Beiti á vertíðinni er 90% makríll,“ bætti Tómas við.

 Hjörvar sagði að síldin hefði eitthvað verið að hreyfa sig að undanförnu og færa sig í austur, fjær landinu.

Stórn Síldarvinnslunnar endurkjörin

Stjorn 2015 agust HEÁ aðalfundi Síldarvinnslunnar hf., sem haldinn var 19. agúst sl., var stjórn 
félagsins endurkjörin. Í stjórinni sitja eftirtalin:
        
   Anna Guðmundsdóttir
   Björk Þórarinsdóttir
   Freysteinn Bjarnason
   Ingi Jóhann Guðmundsson
   Þorsteinn Már Baldvinsson
Varamenn:
   Arna Bryndís Baldvins McClure
   Halldór Jónasson
 
Þorsteinn Már Baldvinsson var kjörinn stjórnarformaður á fyrsta fundi nýkjörinnar stjórnar.
 
Nýkjörin stjórn Síldarvinnslunnar ásamt framkvæmdastjóra. Talið frá vinstri: Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri, Ingi Jóhann Guðmundsson, Anna Guðmundsdóttir, Halldór Jónasson, Arna Bryndís Baldvins McClure, Freysteinn Bjarnason, Björk Þórarinsdóttir og Þorsteinn Már Baldvinsson.
Ljósm.: Hákon Ernuson.

Reyndi á skilning bandalagsþjóða Íslendinga?

Frá aðalfundi Síldarvinnslunnar í gær. Þorsteinn Már Baldvinsson í ræðustóli. Ljósm. Smári Geirsson.Frá aðalfundi Síldarvinnslunnar í gær. Þorsteinn Már Baldvinsson í ræðustóli. Ljósm. Smári Geirsson.Aðalfundur Síldarvinnslunnar vegna ársins 2014 fór fram í Neskaupstað í gær. Hér að neðan er birtur hluti úr ræðu stjórnarformanns fyrirtækisins, Þorsteins Más Baldvinssonar, sem hann flutti á fundinum.
 
„Síldarvinnslan hefur í hartnær sex áratugi selt afurðir sínar út um allan heim og þurft í gegnum tíðina að bregðast við breytingum á innri og ytri aðstæðum. Viðskiptasambönd byggjast upp á löngum tíma og byggjast á gagnkvæmu trausti. Í traustum viðskiptasamböndum ganga menn saman í gegnum sveiflur. Rússar fóru með okkur í gegnum niðursveifluna á Íslandi. Á sama hátt höfum við farið með Rússum í gegnum þeirra niðursveiflu síðastliðið ár. 
 
Afurðir eru ekki alltaf seldar á þann markað sem gefur hæsta verð á hverjum tíma en hærra verð getur stundum átt sér skýringar í skammtíma breytingum á borð við innbyrðis breytingar á gjaldmiðlum. Heldur er horft til sögunnar og langtíma hagsmunir metnir. 
 
Sterk alþjóðleg staða sjávarútvegsins
 
Staða íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni um sölu matvæla er ótrúlega sterk og það er ekkert það markaðssvæði í heiminum sem menn hafa látið afskipt. Fyrirtækin hafa sérhæft sig inn á ákveðna markaði og íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa notið trausts viðskiptavina vegna þess að langtíma hagsmunir í markaðsmálum hafa verið teknir fram yfir það sem menn hafa metið sem skammtíma hagsmuni eins og tímabundnar verðsveiflur. 
 
Þetta hafa fyrirtækin gert án fjárhagslegs stuðnings stjórnvalda. 
 
Umræðan og fullyrðingar einstakra stjórnmálamanna og fræðimanna undanfarna daga byggist annað hvort á vanþekkingu eða litlum skilningi. 
 
Saga Síldarvinnslunnar og saga viðskipta við Rússland er samofin. Innflutningsbann Rússa á sjávarafurðum til Rússlands er ákveðið áfall fyrir íslenskan sjávarútveg. Því miður gerðist það sem við höfðum óttast og varað við undanfarna mánuði. Við sem störfum í íslenskum sjávarútvegi erum sorgmædd yfir hversu afvegaleidd umræðan hefur verið. Fullyrðingar um að þeir sem starfa í greininni sjái ekki lengra en tvo mánuði fram í tímann, þ.e.a.s. meðan svokölluð makrílvertíð stendur yfir, eru með ólíkindum. 
 
Við skulum fara yfir um hvað málið snýst. 
 
Bannið ekki refsiaðgerð
 
Þvert á það sem ætla mætti af fjölmiðlaumfjöllun og yfirlýsingum ráðamanna þá snúast aðgerðir Evrópusambandsins ekki um refsingu. Þetta eru ekki refsiaðgerðir. Það kemur skýrt fram í tilkynningu Evrópusambandsins. Jafnframt kemur fram að þetta séu aðgerðir sem eiga ekki að hitta fyrir almenning, hvorki í Rússlandi né löndum Evrópusambandsins. Það kemur einnig skýrt fram. Í umræðunni er talað um viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi. Er það rétt? Hverjar eru þær?
 
Helstu atriðin eru: 
  • Bann á inn- og útflutningi á vopnum og tengdum varningi.
  • Takmörkun á viðskiptum með tiltekna fjármálagerninga við örfá fyrirtæki.
  • Bann við að lána fimm bönkum fjármuni.
  • Frysting eigna og ferðabann nokkurra einstaklinga.
 Lítum nánar á þetta: 
  • Eldri samningar um vopnaviðskipti falla ekki undir bannið. 
  • Á Íslandi eru gjaldeyrishöft og því útilokað að íslensk fyrirtæki láni eða eigi í viðskiptum með fjármálagerninga.
 
Eftir stendur bann við kaupum og sölu hergagna. 
 
Áhrifin í Evrópu hverfandi
 
Rússar geta selt og keypt hvaða vöru sem er, fyrir utan hergögn, frá löndum Evrópusambandsins. Lítum til dæmis á áhrifin á Þýskaland. Þar gætti jafnaðarmaðurinn Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, þess að aðgerðirnar hefðu hverfandi áhrif á fyrirtæki og einstaklinga bæði í Þýskalandi og Rússlandi. 
 
Stjórnmálamenn og aðrir hafa margir hverjir talað um að við þurfum að vera þátttakendur í viðskiptaþvingunum á Rússa vegna þess að við þurfum að treysta á aðrar þjóðir í alþjóðasamstarfi. Í huga fólks snúast viðskiptaþvinganir um að bannað sé að flytja inn eða selja vörur til ákveðins lands og hafi veruleg efnahagsleg áhrif á líf fólks. Þannig væri hægt að tala um viðskiptaþvinganir ef Þjóðverjar hefðu lokað á gasinnflutning frá Rússlandi. Það hefði haft skaðleg áhrif. Engar slíkar viðskiptahömlur eru í gangi. 
 
Eigum ekki viðskipti með hergögn
 
Það hefur legið ljóst fyrir mánuðum saman hvaða áhrif þátttaka Íslands í banni á inn- og útflutningi hergagna hefði fyrir útflutning Íslands. Hefði ekki verið möguleiki að fá skilning meðal Evrópusambandsþjóða og Bandaríkjamanna fyrir því að Ísland sé á móti aðgerðum Rússa í Úkraínu án þess að vera formlegur aðili að banninu, þar sem við hvorki framleiðum eða stundum viðskipti með hergögn?
 
Þetta snýst ekki um það hvort við viljum vera „þjóð meðal þjóða“ og alls ekki ef markmið Evrópusambandsins eru höfð í huga og lesin. Það er ómaklegt að ráðast á einstaka aðila og ásaka sjávarútveginn um að stjórnast af skammtímahagsmunum,vilja ráðskast með utanríkisstefnuna, sýna mannréttindum skeytingarleysi og hunsa samfélagslega ábyrgð. 
 
Hefur íslenskur sjávarútvegur gert athugasemdir við afstöðu íslenskra stjórnvalda gagnvart framferði Rússa í Úkraínu? Nei. Trúa menn því virkilega að þeir sem starfi í sjávarútvegi séu á móti vopnasölubanni á Rússland? Það getur ekki verið. 
 
Gagnrýni sjávarútvegsins snýr að því að tíminn var ekki nýttur til að ígrunda hvað væri í húfi, hvaða þýðingu Rússlandsmarkaður hefur fyrir Ísland og bera saman hvað þýðingu það hefði fyrir Ísland að vera aðili að vopnasölubanni á Rússland miðað við aðrar þjóðir. Hefðu Íslendingar ekki getað komið sjónarmiðum sínumvarðandiaðgerðir Rússa í Úkraínu með öðru móti á framfæri án þess að skaða eigin hagsmuni eða fólks í Rússlandiþar sem ekki er um refsiaðgerð að ræða af hálfu Evrópusambandsins? 
 
Reyndi á skilning bandamanna okkar?
 
Myndi það ekki njóta skilnings bandamanna okkar og vera í samræmi við áherslur Evrópusambandsins um að lágmarka tjón almennings og fyrirtækja, að nægjanlegt væri að Ísland lýsti yfir skýrri afstöðu þó svo ekki væri skrifað undir vopnasölubann sem vitað var að myndi leiða til innflutningsbanns á mikilvægar útflutningsvörur Íslands?“
 
Hluti af ræðu Þorsteins Más Baldvinssonar, stjórnarformanns Síldarvinnslunnar, á aðalfundi 2015.