Einelti er óásættanlegt

Kristján Már Magnússon sálfræðingur hélt fyrirlestur um einelti fyrir starfsmenn Síldarvinnslunnar   Ljósm.Hákon ErnusonKristján Már Magnússon sálfræðingur hélt fyrirlestur um einelti fyrir starfsmenn Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon ErnusonSl. fimmtudag og föstudag hélt Kristján Már Magnússon sálfræðingur fyrirlestra um einelti fyrir starfsfólk Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði og í Neskaupstað. Á fimmtudaginn var fyrirlesturinn haldinn tvisvar á Seyðisfirði og einu sinni í Neskaupstað og á föstudag var hann haldinn fjórum sinnum í Neskaupstað.
 
Í fyrirlestrinum var fjallað um skilgreiningu á eineltishugtakinu og ákvæði laga og reglna um einelti. Rætt var um þolendur og gerendur í eineltismálum og mikilvægi þess að stemma stigu við einelti á frumstigi. Í fyrirlestrinum var einnig rætt um þá sem verða vitni að einelti og hve brýnt sé að þeir geri yfirmanni á vinnustað eða starfsmannastjóra grein fyrir því. Starfsmenn þurfa að vera meðvitaðir um eineltisvandann og taka virkan þátt í að kæfa hann í fæðingu ef vart verður við hann.
 
Að sögn Hákonar Ernusonar starfsmannastjóra Síldarvinnslunnar er mikilvægt að starfsfólk sé upplýst um einelti og hafi fyrirlesturinn verið liður í því. Að hans sögn þurfa menn ávallt að vera vakandi í þessum efnum og þurfa allir að gera sér grein fyrir því til hvers alvarlegt einelti getur leitt. Það er ekki síst mikilvægt að þeir sem upplifi einelti á vinnustað en eru hvorki í hlutverki geranda né þolanda bregðist við og upplýsi hlutaðeigandi yfirmann um ástandið. Sá sem upplýsir um eineltisvanda á vinnustað nýtur nafnleyndar og ætti enginn að hika við að segja frá og láta taka á málinu. 

Bleiki dagurinn er í dag

Konur á skrifstofunni á bleikum degi. Ljósm. Hákon ErnusonKonur á skrifstofunni á bleikum degi. Ljósm. Hákon ErnusonBleiki dagurinn er í dag en október er mánuður bleiku slaufunnar eins og öllum er kunnugt. Bleika slaufan er árveknis- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands gegn krabbameinum hjá konum. Á bleika deginum eru allir landsmenn hvattir til að hampa bleikum lit og sýna samstöðu gegn krabbameinsvágestinum. Síldarvinnslan lætur ekki sitt eftir liggja á bleika deginum og bleiki liturinn er býsna áberandi innan fyrirtækisins. Til að mynda er boðið upp á dýrindis bleikar tertur með kaffinu og öllum konum sem eru að störfum hjá fyrirtækinu í dag var afhent hálsmen með bleiku slaufunni.

Tvöfalt meiri afli unninn á Seyðisfirði en í fyrra

Unnið af krafti í fiskvinnslustöð Gullbergs á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonUnnið af krafti í fiskvinnslustöð Gullbergs á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonUm þessar mundir hafa 2.600 tonn af fiski komið til vinnslu hjá fiskvinnslustöð Gullbergs á Seyðisfirði það sem af er þessu ári. Á sama tíma í fyrra höfðu 1.310 tonn komið þar til vinnslu. Aflinn sem unninn hefur verið hefur semsagt tvöfaldast á milli ára. Nánast allur afli sem unninn hefur verið í fiskvinnslustöðinni á árinu er ufsi og þorskur. Einungis örlítið af ýsu hefur fengið að fljóta með. 
 
Ómar Bogason hjá fiskvinnslustöð Gullbergs segir að þróunin sé svo sannarlega ánægjuleg. „Þetta er rosaleg breyting. Um langt skeið hefur yfirleitt ekki verið unnin full vinnuvika hjá okkur en nú er framleitt á fullu alla daga. Það er séð til þess að ávallt sé nægilegt hráefni til vinnslu – þetta er eins og í súkkulaðiverksmiðju. Svona þarf þetta að vera og við væntum þess að í framtíðinni verði vinnslan hér vel búin og skili góðri rekstrarniðurstöðu. Starfsfólkið er mjög ánægt með þessa breytingu á starfseminni og það hefur allt staðið sig frábærlega,“ sagði Ómar.
 
Frá því að Síldarvinnslan festi kaup á fiskvinnslustöðinni á Seyðisfirði og togaranum Gullver hefur afli til stöðvarinnar komið frá Gullver, Bjarti og Vestmannaeyjaskipunum Bergey og Vestmannaey.
 
Gullver kom til löndunar á Seyðisfirði í gær og var afli hans 70 tonn, uppistaðan þorskur og karfi.

Það styttist í starfsmannahátíð

Geir Ólafsson stórsöngvari. Ljósm. Guðlaugur BirgissonGeir Ólafsson stórsöngvari. Ljósm. Guðlaugur BirgissonEins og starfsfólki Síldarvinnslunnar er kunnugt verður starfsmannahátíð fyrirtækisins haldin í íþróttahúsinu í Neskaupstað nk. laugardag 17. október. Hátíðin verður hin veglegasta og ættu allir að geta skemmt sér vel á henni. Húsið mun opna kl. 19 og mun borðhald hefjast kl. 20. stundvíslega.
 
Veislustjórar á hátíðinni verða leikararnir Jóhannes Haukur Jóhannesson og Rúnar Freyr Gíslason. Hljómsveit Rigg-viðburða mun skemmta ásamt söngvurunum Siggu Beinteins, Hreimi og Friðriki Ómari. Þá munu gestir fá að njóta afraksturs heimsókna Hraðfréttamanna.
 
Að loknu borðhaldi og skemmtiatriðum verður dansað til kl. 03 um nóttina og mun hljómsveit Rigg-viðburða ásamt fyrrnefndum söngvurum sjá um að halda uppi góðu stuði.
 
Matseðillinn á hátíðinni er svofelldur:     
  •     Forréttur: Fimm rétta tapasveisla
  •     Aðalréttur: Koníksmarinerað heilsteikt lambafille og grilluð nautalund með fondantkartöflu, sveppasósu og grænmeti
  •     Eftirréttur: Súkkulaðikaka með rjóma og ávöxtum