Mikið um að vera í Norðfjarðarhöfn

Sannkölluð örtröð skipa er í Norðfjarðarhöfn þessa dagana. Ljósm. Hákon ErnusonSannkölluð örtröð skipa er í Norðfjarðarhöfn þessa dagana. Ljósm. Hákon ErnusonNú um helgina hefur svo sannarlega verið líflegt í Norðfjarðarhöfn. Segja má að þar hafi verið örtröð skipa og þau skip sem ekki hafa komist að hafa legið úti á firði. Síldarvinnsluskipin Börkur og Beitir liggja í höfninni að afloknum makrílveiðum og þar um borð er eðlilegu viðhaldi sinnt. Grænlensku skipin Polar Amaroq og Polar Princess hafa verið að landa frystri síld beint um borð í flutningaskip og Hákon EA kom með fullfermi af frystum makríl. Þá var verið að gera frystitogarann Barða kláran til veiðiferðar. Til viðbótar við þessi skip komu smærri bátar til löndunar og hvert sem litið var á  hafnarsvæðinu voru menn í önnum.
 
Grænlensku skipin Polar Amaroq og Polar Princess hafa verið að síldveiðum austur af Grænlandi þar sem þau hafa partrollað. Í upphafi veiðiferðarinnar lögðu skipin stund á makrílveiðar en fljótlega sneru þau sér að síldinni. Mikið af síld var að sjá á þeim slóðum sem skipin toguðu og komu þau bæði með fullfermi til löndunar. Afli Polar Princess var um 1100 tonn og Polar Amaroq 650 tonn.

Viðbygging rís við fiskiðjuver Síldarvinnslunnar

viðbygging

Framkvæmdir við stækkun fiskiðjuversins. Ljósm: Smári Geirsson

Stefnt er að því að auka afköst fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og eru yfirstandandi byggingaframkvæmdir norðan við verið liður í þeim áformum. Viðbyggingin sem nú er að rísa er um 1000 fermetrar að stærð. Með tilkomu hennar mun vinnslurými versins stækka en í tengslum við framkvæmdirnar mun eldra húsnæði verða breytt þannig að rými eykst fyrir frystipressur. Þessi nýja bygging er með svipuðu sniði og og pökkunarstöðin sem byggð var við fiskiðjuverið í fyrra en hún er einnig 1000 fermetrar að stærð.

Það er Mannvit sem hefur hannað viðbygginguna og annast eftirlit með framkvæmdum. Aðalverktaki er Nestak hf. en Haki ehf. annaðist jarðvegsframkvæmdir og Fjarðalagnir sjá um lagnavinnuna.

Framkvæmdir við viðbygginguna hófust um mánaðamótin maí-júní og er áformað að þeim ljúki seint á haustmánuðum.

 

Togararnir landa á síðasta degi fiskveiðiársins

Löndun úr Barða NK. Ljósm. Hákon ErnusonLöndun úr Barða NK. Ljósm. Hákon ErnusonTogararnir Blængur NK, Barði NK, Bergey VE og Gullver NS eru allir að landa í dag en Bjartur NK landaði í gær. Blængur er að landa á Akureyri, Gullver á Seyðisfirði, Bergey í Vestmannaeyjum, Barði í Neskaupstað og Bjartur landaði í Neskaupstað í gærdag.
 
Afli frystitogarans Blængs er 425 tonn upp úr sjó og er uppistaða aflans ufsi, þorskur og karfi. Frystitogarinn Barði kom með fullfermi að landi og er aflinn að meginhluta til grálúða og þorskur. Ísfisktogarinn Bergey er að landa um 60 tonnum og Gullver 70 tonnum. Afli ísfisktogarans Bjarts var síðan um 80 tonn.
 
Gert er ráð fyrir að ísfisktogararnir haldi til veiða á ný um miðja vikuna og Barði í vikulokin. 
 

Framlag Síldarvinnslusamstæðunnar til samfélagsins var 9,8 milljarðar á árunum 2013-2014 – þar af voru veiðigjöld tæplega 1,9 milljarðar

Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte hefur reiknað út svonefnt skattaspor Síldarvinnslusamstæðunnar fyrir árin 2013 og 2014. Skattaspor er tiltekin aðferðafræði sem notuð er til að greina heildarframlag fyrirtækja til samfélagsins í formi skatta og opinberra gjalda. Til Síldarvinnslusamstæðunnar  teljast auk móðurfélagsins Síldarvinnslunnar hf., Gullberg ehf., Bergur-Huginn ehf., Fóðurmjölsverksmiðjan Laxá og SVN-eignafélag ehf.  

Hér á eftir verða birtar nokkrar athyglisverðar niðurstöður skattasporsins:

  • Verðmætasköpun Síldarvinnslusamstæðunnar nam rúmum 23 milljörðum króna árið 2014 og fjöldi ársverka var 288.

  • Rekstrarkostnaður fyrir utan laun og skatta á árinu 2014 nam tæpum 10 milljörðum króna og er stór hluti kostnaðarins vegna kaupa á vörum og þjónustu frá öðrum innlendum fyrirtækjum.

  • Launagreiðslur námu 14,3% af verðmætasköpun ársins 2014.

  • Meðaltal heildarlauna starfsmanna á árinu 2014 var 12 milljónir króna.

  • Skattaspor samstæðunnar var 1,6 milljón krónur á mánuði fyrir hvern starfsmann árið 2014 og 1,9 milljón krónur á mánuði 2013. Skattasporið nam því samanlagt 42 milljónum króna fyrir hvern starfsmann á árunum 2014 og 2013.

  • Skattasporið nam 104 krónum fyrir hvert þorskígildiskg. af veiðiheimildum ársins 2014 og 154 krónum fyrir hvert þorskígildiskg. ársins 2013.

  • Veiðigjöld námu 909 milljónum króna árið 2014 og 954 milljónum árið 2013.

  • Veiðigjöldin sem hlutfall af heildarskattaspori námu tæplega 20% árið 2014 og um 18% árið 2013.

  • Samanlagt námu greiddir og innheimtir skattar ásamt opinberum gjöldum samstæðunnar 4,6 milljörðum króna árið 2014 og 5,2 milljörðum króna árið 2013. Samanlagt nam því framlag samstæðunnar til samfélagsins 9,8 milljörðum króna í formi skatta og opinberra gjalda á árunum 2013 og 2014.

  2014

 2013