Eftir flóðið

Eftir flóðið

Ólafur Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, hefur sent frá sér ritið Eftir flóðið en í því fjallar hann um uppbyggingu Síldarvinnslunnar eftir snjóflóðin sem féllu í Neskaupstað 20. desember 1974. Hér er um að ræða fróðlega samantekt sem varpar skýru ljósi á þá baráttu sem háð var fyrir enduruppbyggingu atvinnufyrirtækjanna sem skemmdust eða eyðilögðust í hamförunum, en fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar gjöreyðilagðist og frystihús fyrirtækisins stórskemmdist.
 
Ólafur Gunnarsson var ráðinn framkvæmdastjóri fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar árið 1968 og síðar sama ár tók hann einnig við starfi framkvæmdastjóra frystihúss fyrirtækisins. Þegar Ólafur settist í stól framkvæmdastjóra var hinum svonefndu síldarárum í raun lokið og sífellt meiri áhersla lögð á bolfiskveiðar og vinnslu. Síldarvinnslan festi kaup á fyrsta skuttogara landsmanna árið 1970, árið 1973 var stórt nótaskip keypt til loðnuveiða og sama ár bættist annar skuttogari í flota fyrirtækisins. Síldarbátarnir sem fyrirtækið hafði keypt á síldarárunum voru hins vegar seldir.
 
Segja má að ágætlega hafi tekist að laga starfsemi Síldarvinnslunnar að nýjum aðstæðum og síðla árs 1974 var staða fyrirtækisins nokkuð góð og var það rekið með hagnaði. En þá dundi ógæfan yfir og snjóflóðin áttu eftir að hafa gífurleg áhrif á allt samfélagið í Neskaupstað. Helstu atvinnufyrirtæki bæjarbúa voru rústir einar eða óstarfhæf eftir flóðin og það sem verra var þá fórust 12 manns í flóðunum, þar á meðal starfsmenn Síldarvinnslunnar. 
 
Ólafur Gunnarsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar. Myndin er tekin árið 1982. Ljósm. Vilberg GuðnasonÓlafur Gunnarsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar. Myndin er tekin árið 1982.
Ljósm. Vilberg Guðnason
Eftir hamfarirnar var oft fundað í stjórn Síldarvinnslunnar og gefa fundargerðir stjórnarinnar góða mynd af því hvernig brugðist var við áfallinu að hálfu fyrirtækisins. Í ritinu birtir Ólafur fundargerðir þeirra funda sem fjölluðu um viðbrögðin auk þess sem hann bætir við ýmsum upplýsingum. Þarna birtist saga baráttunnar fyrir endurreisn atvinnulífsins í bænum eftir flóðin og þau átök sem áttu sér stað um bótagreiðslur vegna skaðans. Mikill ágreiningur um upphæð bótagreiðslanna ríkti á milli Viðlagasjóðs og heimamanna og lauk samskiptunum við sjóðinn ekki fyrr en á árinu 1980 með sáttargerð. Þótti mat sjóðsins á bótagreiðslum og aðrar kröfur sem sjóðurinn setti fram afar ósanngjarnar. Til dæmis kemur fram í riti Ólafs að Viðlagasjóður hafi jafnvel talið eðlilegt að afkastamikil fiskimjölsverksmiðja yrði ekki reist á ný í Neskaupstað heldur einungis lítil beinaverksmiðja í tengslum við starfsemi frystihússins.
 
Eins og fyrr greinir var Síldarvinnslan tiltölulega öflugt fyrirtæki áður en flóðin féllu en í hönd fóru mikil erfiðleikaár sem reyndu mjög á stjórnendur þess. Uppbyggingin var kostnaðarsöm, bætur Viðlagasjóðs vanreiknaðar og sjávarútvegurinn almennt átti í rekstrarerfiðleikum. Þess skal getið að verðbólgan var mikil á umræddum tíma eða á bilinu 30 til 80% á árunum 1974-1983 og auðveldaði það ekki verkefni stjórnenda Síldarvinnslunnar.
 
Ólafur Gunnarsson gegndi starfi framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar til ársins 1984 en þá voru liðin 10 ár frá því að snjóflóðin félllu.
 
Nokkur eintök af riti Ólafs Gunnarssonar fást á skrifstofu Síldarvinnslunnar auk þess sem Bókasafnið í Neskaupstað og Skjala- og myndasafn Norðfjarðar hafa fengið eintök. Hægt er að verða sér úti um eintak með því að hringja á skrifstofu Síldarvinnslunnar og sækja síðan ritið þangað.
 
 

Fyrsta samfélagsskýrsla Síldarvinnslunnar

 

Fyrsta samfélagsskýrsla SíldarvinnslunnarSeint á síðasta ári gaf Síldarvinnslan út samfélagsskýrslu fyrirtækisins fyrir árið 2019. Skýrslan er aðgengileg á heimasíðu fyrirtækisins (svn.is). Um er að ræða fyrstu samfélagsskýrsluna sem Síldarvinnslan gefur út en hún er liður í að auka gegnsæi og greina frá ýmsum þáttum starfseminnar sem ekki eru endilega metnir í magni eða fjármunum. Skýrslan er gerð samkvæmt alþjóðlega staðlinum Global Reporting Initiative (GRI).
 
Samfélagsskýrslunni er ætlað að bæta vinnubrögð og auka umhverfisvitund. Í skýrslunni er gerð grein fyrir starfsemi fyrirtækisins og eins eru birtar upplýsingar er varða umhverfis- og samfélagsmál. Í skýrslunni segir eftirfarandi um starfsemi Síldarvinnslunnar:
 
„Síldarvinnslan einsetur sér að vera fyrirmynd um ábyrga og arðbæra viðskiptahætti og vinna í sátt við umhverfi og samfélag. Síldarvinnslan kappkostar að umgangast lífríki hafsins af virðingu og nýta sjávarauðlindina með sjálfbærum hætti. Lögð er áhersla á að fylgja ráðgjöf vísindanna, þar sem stuðst er við bestu vitneskju hverju sinni, til að sjálfbærni fiskistofna sé tryggð til framtíðar og komandi kynslóðir fái notið góðs af. Við veiðar og vinnslu er lögð áhersla á að lögum og reglum sé fylgt í hvívetna.
 
Síldarvinnslan framleiðir afurðir sínar eftir viðurkenndum stöðlum sem tryggja eiga sjálfbærni, rekjanleika og heilnæmi afurðanna. Allar starfsstöðvar félagsins eru undir eftirliti Matvælastofnunar (MAST). Félagið er með vottuð gæðastjórnunarkerfi sem styðja við þessi markmið.“
 
Í skýrslunni er ítarlega farið yfir þau umhverfisáhrif sem starfsemi Síldarvinnslunnar veldur og þá einkum losun gróðurhúsalofttegunda. Jafnframt er farið yfir hvað áunnist hefur á sviði umhverfismálanna á undanförnum árum. Þar er meðal annars getið um ný og umhverfisvænni fiskiskip og raforkuvæðingu fiskimjölsverksmiðja.
 
Ítarlega er fjallað um starfsmannamál og kemur þar til dæmis fram að fyrsta jafnlaunaúttektin hjá fyrirtækinu var framkvæmd árið 2018 og fannst þá enginn óútskýrður launamunur. Viðhaldsúttekt var síðan framkvæmd árið 2019 og varð niðurstaðan hin sama.
 
Í skýrslunni er einnig fjallað um þætti eins og öryggi og heilsu starfsfólksins, fræðslu og uppbyggingu mannauðs, mannréttindi og kjarasamninga. Þá kemur skýrt fram að vilji fyrirtækisins er að hafa jákvæð áhrif á samfélagið og nærumhverfi sitt. Fyrirtækið veitir margvíslega styrki til góðra málefna og styður við bakið á ýmsum samtökum og stofnunum. Þá hefur verið lögð áhersla á samstarf við menntastofnanir og stuðlað að fræðslu um sjávarútveginn á meðal ungs fólks.
 
Er fólk eindregið hvatt til að kynna sér efni samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar á heimasíðu fyrirtækisins.

Sjávarútvegsskóli unga fólksins blómstrar

Nemendur sem útskrifuðust úr Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar árið 2013. Ljósm. Margrét ÞórðardóttirNemendur sem útskrifuðust úr Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar árið 2013. Ljósm. Margrét ÞórðardóttirÁrið 2013 hóf Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar starfsemi í Neskaupstað. Mikill áhugi reyndist vera fyrir skólastarfinu og voru nemendur 27 að tölu, 17 stúlkur og 10 piltar. Nemendurnir voru 14-15 ára að aldri og voru þeir á launum á meðan skólinn starfaði. Launin voru sambærileg laununum sem greidd voru í Vinnuskóla Fjarðabyggðar.
 
Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar var tilraunaverkefni en forsvarsmenn fyrirtækisins töldu mikilvægt að gefa ungmennum kost á að fræðast um sjávarútveg. Í skólanum var fjallað um gæða- og markaðsmál, starfsmannamál, menntun starfsfólks í atvinnugreininni og sögu sjávarútvegsins. Mikil áhersla var lögð á heimsóknir í sjávarútvegsfyrirtæki og fyrirtæki sem tengjast sjávarútveginum. Til dæmis var fiskiðjuver heimsótt og fiskimjölsverksmiðja og einnig netagerð, vélaverkstæði, rannsóknastofur o.fl. Þá var farið um borð í fiskiskip og allur búnaður um borð í þeim skoðaður ásamt því að fjallað var um starfsemina um borð.
 
Þórhallur Jónasson heldur fyrirlestur í Sjávarútvegsskólanum árið 2013. Ljósm. Margrét ÞórðardóttirÞórhallur Jónasson heldur fyrirlestur í Sjávarútvegs-skólanum árið 2013. Ljósm. Margrét ÞórðardóttirSjávarútvegsskólinn vakti strax mikla athygli og var mörgum ljóst að þörf væri fyrir slíkan skóla. Staðreyndin er sú að íslenska skólakerfið veitir litla innsýn í þessa grunnatvinnugrein þjóðarinnar og unnt er að alast upp í sjávarplássi án þess að öðlast þekkingu á veiðum og vinnslu. Því er nauðsynlegt að fræða unga fólkið um atvinnugreinina með öðrum hætti.
 
Víða kviknaði áhugi fyrir starfsemi Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar og strax árið 2014 var boðið upp á fræðsluna í allri Fjarðabyggð. Þá var skólinn nefndur Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar. Árið 2015 var fræðslan síðan skipulögð um allt Austurland og var þá nafni skólans breytt og hann nefndur Sjávarútvegsskóli Austurlands. Árið 2016 hóf Háskólinn á Akureyri að annast skólahaldið og teygði skólinn þá anga sína til Norðurlands og reyndar víðar. Eftir að Háskólinn tók við skólanum hefur hann verið nefndur Sjávarútvegsskóli unga fólksins. Tekið skal fram að fljótlega varð Sjávarútvegsskólinn samvinnuverkefni með viðkomandi sveitarfélögum í gegnum vinnuskóla þeirra, en skólahaldið er að öllu leyti fjármagnað af fyrirtækjum í sjávarútvegi.
 
Nemendur Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar í heimsókn í fiskiðjuveri fyrirtækisins árið 2013. Ljósm. Margrét ÞórðardóttirNemendur Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar í heimsókn í fiskiðjuveri fyrirtækisins árið 2013.
Ljósm. Margrét Þórðardóttir
Umsjónarmaður skólans eftir að Háskólinn á Akureyri tók við starfseminni er Guðrún Arndís Jónsdóttir forstöðumaður Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri. Guðrún upplýsir að Sjávarútvegsskólinn hafi stækkað mikið og einkum á síðasta ári. Á árinu 2018 voru 157 nemendur í skólanum en í fyrra voru þeir um fjögur hundruð. Þá hefur starfsstöðvum skólans fjölgað og á síðasta ári hófst starfsemi í Reykjavík, Vesturbyggð og á Sauðárkróki. Þá greinir Guðrún frá því að Sjávarútvegsskólinn hafi vakið athygli erlendis og nú sé ráðgert að koma á fót Fiskeldisskóla unga fólksins sem myndi byggja á sömu hugmyndafræði og sambærilegu skipulagi.
 
Það verður vart annað sagt en Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar, sem varð til árið 2013, hafi svo sannarlega skotið föstum rótum og haft áhrif víða til hagsbóta fyrir mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar.
 
 
 
 
 

Fyrstu loðnutonnin frá 2018 – bullandi bræla á miðunum

Grænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq. Ljósm. Hákon ErnusonGrænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq.
Ljósm. Hákon Ernuson
Grænlenska skipið Polar Amaroq fékk 20-30 tonn af loðnu í gærkvöldi í trollhólfinu austur af landinu en það er fyrsta loðnan sem veiðist hér við land frá árinu 2018. Tekið var eitt hol í leiðindaveðri. Heimasíðan ræddi við Sigurð Grétar Guðmundsson skipstjóra. „Við prufuðum að kasta í gær rétt áður en dimmdi en veðrið var afskaplega leiðinlegt. Við leituðum síðan í nótt en það er bara ekkert veiðiveður. Við fengum um 20-30 tonn af stórri loðnu en það er töluverð áta í henni. Við munum frysta aflann um borð. Það er bullandi bræla og ég held að sé ekkert annað að gera en að leita vars,“ segir Sigurður.
 
Útgefinn loðnukvóti Polar Amaroq er 1155 tonn.
 
 
 
 

Gullver landar á Seyðisfirði

Gullver NS að landa. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS að landa. Ljósm. Ómar BogasonÍsfisktogarinn Gullver NS kom til heimahafnar á Seyðisfirði í morgun með tæplega 96 tonn. Aflinn er mestmegnis þorskur og ufsi. Landað verður úr skipinu í dag og það mun síðan halda til veiða á ný í kvöld. Heimasíðan ræddi stuttlega við Rúnar L. Gunnarsson skipstjóra og spurði fyrst hvernig túrinn hefði gengið. „Hann gekk svona þokkalega en við vorum fimm daga að veiðum. Við hófum veiðar á Öræfagrunni og enduðum á Glettinganesflakinu. Mér finnst vanta dálítinn kraft í þorskinn, það hefði mátt ganga betur að eiga við hann. Það liggur fyrir að loðna er komin hér fyrir austan land því það er talsvert af henni í fiskinum,“ segir Rúnar.
 
Að sögn Ómars Bogasonar hjá frystihúsinu á Seyðisfirði fer vinnslan þar vel af stað og enginn skortur á hráefni. Segir hann mjög mikilvægt að fyrirtækin á Seyðisfirði séu farin að starfa eftir skriðuföllin og lífið á staðnum sé óðum að nálgast eðlilegt horf.
 
 

Eyjarnar báðar með fullfermi

Bergey VE. Ljósm. Egill Guðni GuðnasonBergey VE. Ljósm. Egill Guðni GuðnasonÍsfisktogararnir Bergey VE og Vestmannaey VE komu báðir til heimahafnar í gær með fullfermi eða á milli 70 og 80 tonn. Bæði skip munu síðan halda til veiða á ný á morgun. Heimasíðan ræddi við þá Birgi Þór Sverrisson skipstjóra á Vestmannaey og Jón Valgeirsson skipstjóra á Bergey. Birgir sagði að veður hefði verið þokkalegt í veiðiferðinni miðað við árstíma. „Það var engin blíða en varla hægt að kvarta. Lengst af var austan kaldi og dálítill fræsingur. Aflinn hjá okkur var mest ýsa og ufsi. Við byrjuðum að veiða á Gerpisflaki og sigum síðan suður á Breiðdalsgrunn. Þarna var ágætis nudd. Við enduðum síðan á Öræfagrunni,“ sagði Birgir Þór.
 
Jón tók undir með Birgi og sagði vart unnt að kvarta undan veðri. „Við lentum í brælu í upphafi túrsins en þá vorum við að veiða á Brettingsstöðum, en síðan var veðrið þokkalegt. Við byrjuðum í þorski en héldum síðan suður með Austfjörðum og fengum mest ýsu. Það var sérstaklega staldrað við á Gerpisflakinu. Við kláruðum síðan túrinn í Skeiðarárdýpinu,“ sagði Jón.

Vinnsla hafin enn á ný í frystihúsinu á Seyðisfirði

Starfsfólk frystihússins er ánægt með að hefja störf að nýju. Ljósm. Ómar BogasonStarfsfólk frystihússins er ánægt með að hefja störf að nýju. Ljósm. Ómar BogasonFrá því var greint að sl. fimmtudagsmorgun hafi vinnsla hafist í frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði eftir skriðuföllin. Það stóð ekki lengi því húsið var rýmt eftir hádegi sama dag. Í gær var haldinn fundur með starfsfólkinu þar sem rætt var um stöðu mála í kjölfar hamfaranna. Á fundinum voru fulltrúar frá lögreglunni, sveitarfélaginu Múlaþingi, almannavörnum og veðurstofunni auk fulltrúa frá Síldarvinnslunni. Farið var yfir stöðu mála með starfsfólkinu bæði á íslensku og ensku og fólk meðal annars frætt um öll öryggismál. Ómar Bogason hjá frystihúsinu segir að fundurinn hafi tekist vel og nú sé allt ljósara í hugum starfsfólksins en áður. „Í málum sem þessum skiptir öllu máli að fólk fái haldgóðar og réttar upplýsingar,“ segir Ómar.
 
Vinnsla hófst enn á ný í frystihúsinu í morgun og að sögn Ómars er fólk miklu rólegra eftir upplýsingafundinn.
 
Gert er ráð fyrir að fljótlega verði birt nýtt ofanflóðahættumat fyrir Seyðisfjörð og munu þá umræður hefjast um ráðstafanir til lengri tíma á staðnum.

Þokkalegasta kolmunnaveiði

Bjarni Ólafsson AK er á landleið með fullfermi af kolmunna. Ljósm. Smári Geirsson Bjarni Ólafsson AK er á landleið með fullfermi af kolmunna. Ljósm. Smári Geirsson Bjarni Ólafsson AK, Beitir NK og Börkur NK hafa verið að kolmunnaveiðum suður af Færeyjum að undanförnu. Bjarni Ólafsson er á landleið með fullfermi og Beitir og Börkur eru langt komnir með að fylla. Heimasíðan ræddi í morgun við skipstjórana á Bjarna Ólafssyni og Beiti um veiðarnar.
 
Runólfur Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni, sagði að skipið kæmi til löndunar í Neskaupstað í kvöld. „Við erum með fullfermi eða 1810 tonn en veiðin hófst 5. janúar sl. Aflinn fékkst í sjö holum en það er mjög lengi dregið eða frá 18 tímum og upp í 32. Stærsta holið okkar var 505 tonn en það minnsta 130. Veiðin fer fram í færeysku lögsögunni alveg við skosku línuna. Það hefur verið töluverður straumur en veiðin hefur engu að síður gengið þokkalega. Það er spurning hve lengi er unnt að veiða þarna því fiskurinn er að ganga suðureftir og hann spáir ekki vel. Það fer brátt að bræla og síðan verður vart veiðiveður fyrr en um miðja næstu viku,“ segir Runólfur.
 
Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, sagði að veiðiferðin hefði gengið vel. „Við erum komnir með tæp 3000 tonn og erum væntanlega á okkar síðasta holi. Það hefur verið hörkugangur í þessu. Við erum með nýtt troll frá Hampiðjunni og það virðist svínvirka. Aflinn hjá okkur hefur gjarnan verið töluvert meiri en hjá öðrum þrátt fyrir að við höfum dregið í styttri tíma. Við höfum verið að draga frá 6 tímum og upp í 24 og fengum til dæmis mjög gott hol eftir 12 tíma. Við erum nú á okkar ellefta holi og síðan verður lagt af stað í land síðar í dag eða í kvöld með fullfermi,“ segir Tómas.
 
Börkur var að toga í morgun og vantar um 400 tonn til að fylla. 
 
Gert er ráð fyrir að Beitir og Börkur muni landa í Neskaupstað og á Seyðisfirði.
 

Eyjarnar gera það gott

Vestmannaey VE að landa í Neskaupstað í gær. Ljósm. Smári GeirssonVestmannaey VE að landa í Neskaupstað í gær.
Ljósm. Smári Geirsson
Ísfisktogarar Bergs-Hugins, Vestmannaey VE og Bergey VE, lönduðu báðir í gær auk þess sem Bergey dró Bylgju VE að landi eftir að hún hafði fengið veiðarfæri í skrúfuna. Vestmannaey landaði í Neskaupstað en Bergey dró Bylgju til Akureyrar og landaði þar. Heimasíðan ræddi stuttlega við skipstjórana.
 
Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, sagði að afli skipsins hefði verið 73 tonn eða fullfermi. “Þetta var mest ufsi og ýsa og dálítið af karfa. Þetta var í reyndinni fínn túr og loksins kom dálítið ufsaskot sem lengi hefur verið beðið eftir. Aflann fengum við frá Skaftárdýpi og austur á Mýragrunn. Við fórum út eftir löndun og erum nú í Berufjarðarálnum. Hérna er sjórinn býsna kaldur og heldur lítið um fisk en hérna verðum við varir við loðnu,” segir Birgir Þór.
 
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, sagðist ekki hafa verið með skipið í síðasta túr. “Það var Ragnar Waage Pálmason sem var með skipið. Þeir voru að fiska á Vestfjarðamiðum, fengu ýsu í Þverálsbotninum og þorsk á Strandagrunni. Þarna var ágætis veiði. Bylgja VE fékk í skrúfuna á Strandagrunni og þá tók Bergey hana í tog. Bylgja var síðan dregin í góðu veðri  í 150 mílur til Akureyrar þar sem mínir menn lönduðu rétt tæpum 60 tonnum. Ég kom um borð á Akureyri og haldið var til veiða í gærkvöldi að löndun lokinni. Nú erum við að keyra austur og ætlum að reyna fyrir okkur út af Langanesi til að byrja með,” segir Jón. 
 
Bergey VE tekur Bylgju VE í tog. Ljósm. Hákon SeljanBergey VE tekur Bylgju VE í tog. Ljósm. Hákon Seljan

Vinnsla hafin í frystihúsinu á Seyðisfirði

rystihúsið á Seyðisfirði. Gullver NS við bryggjuna. Ljósm. Ómar BogasonFrystihúsið á Seyðisfirði. Gullver NS við bryggjuna.
Ljósm. Ómar Bogason
Í morgun hófst vinnsla í frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði en hún féll niður þegar stóra skriðan féll þar 18. desember sl. Heimasíðan ræddi við Ómar Bogason hjá frystihúsinu og spurði fyrst hvort fólk væri ekki ánægt með að geta hafið störf að nýju. „Jú, það má með sanni segja. Fólk er afskaplega ánægt með að lífið sé aftur að færast í fyrra horf. Við fengum heitt vatn frá fjarvarmaveitunni í húsið í gær og þá var hafist handa við að þrífa og allt var gert spikk og span. Gullver NS kom síðan í morgun með tæp 100 tonn af blönduðum afla þannig að ekki skortir hráefnið. Nú landar Gullver við fiskvinnslubryggjuna en síðast þurfti hann að landa við Strandarbakka vegna þess að ekki var fært í gegnum skriðuna. Fyrstu dagana verður starfsfólkið flutt með rútu í gegnum skriðusvæðið að frystihúsinu, en reynt er að takmarka umferðina þar sem mest vegna þess að unnið er að því að breikka veginn í gegn og hreinsa svæðið,“ segir Ómar.

Stækkun fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað úr 1400 tonnum í 2380 tonn – aukin áhersla á framleiðslu verðmætra próteinríkra afurða

Braedsla ny 1Verksmiðjan eftir fyrirhugaða stækkun séð frá norðri. Nýbyggingar eru gular að lit með dekkri þökum.Verksmiðjan eftir fyrirhugaða stækkun séð frá norðri. Nýbyggingar eru gular að lit með dekkri þökumÁkvörðun hefur verið tekin um að stækka fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og auka afköst við hrognavinnslu um helming. Eftir stækkunina verður í verksmiðjunni eining eða lítil verksmiðja sem hentar sérstaklega til að vinna afskurð frá fiskiðjuveri fyrirtækisins.
 
Fyrir liggur að fiskimjölsverksmiðjur á Íslandi eru of margar og mikilvægt að auka hagræðingu í fiskimjölsiðnaðinum. Síldarvinnslan lokaði verksmiðju sinni í Helguvík á síðasta ári og var það liður í hagræðingaraðgerðum. Á Íslandi er búið við þær aðstæður að verksmiðjurnar þurfa að geta unnið mikinn afla á skömmum tíma og er því nauðsynlegt að þær séu afkastamiklar. Einnig eru aðstæður oft þannig að einungis þarf að vinna afskurð frá manneldisvinnslu og til þess þarf ekki afkastamikla verksmiðju heldur er mikilvægt að geta unnið hráefnið jafnóðum. Ákvörðun um stækkun verksmiðjunnar í Neskaupstað og uppsetningu litlu verksmiðjueiningarinnar tekur mið af þessum aðstæðum. Þegar hefur fengist starfsleyfi fyrir verksmiðju í Neskaupstað sem á að geta afkastað 2380 tonnum á sólarhring en gert er ráð fyrir að litla verksmiðjan afkasti 100-380 tonnum. Nú afkastar verksmiðjan í Neskaupstað að hámarki 1400 tonnum á sólarhring.
 
Hin auknu afköst munu gera kleift að vinna stóra farma á ásættanlegum tíma og litla verksmiðjan verður með sveigjanlegum afköstum þannig að unnt verður að vinna allt hráefni sem ferskast. Með þessu fyrirkomulagi ætti orkunýting að vera eins og best þekkist. Með tilkomu litlu verksmiðjunnar verður lögð áhersla á að auka gæði framleiðslunnar og þróa áfram aðferðir til að framleiða verðmætar próteinríkar afurðir.
 
Verksmiðjan eftir fyrirhugaða stækkun séð frá vestri. Nýbyggingar gular að lit með dekkri þökumVerksmiðjan eftir fyrirhugaða stækkun séð frá vestri. Nýbyggingar gular að lit með dekkri þökumGert er ráð fyrir að framkvæmdum við verksmiðjuna verði skipt í tvo áfanga. Í fyrri áfanganum verður reist 2000 fermetra hús með öllu tiheyrandi, þar á meðal öflugri loftræstingu og lykteyðingarbúnaði. Þá verður allur búnaður í litlu verksmiðjuna keyptur og hún sett upp. Gert er ráð fyrir að kostnaður við fyrri áfangann verði um 2,3 milljarðar króna. Í síðari áfanganum verður komið upp búnaði í verksmiðjunni sem eykur afkastagetu hennar í 2380 tonn. Unnt verður að koma búnaðinum fyrir í skrefum þannig að framkvæmdir munu ekki trufla starfsemi verksmiðjunnar. Áætlaður kostnaður við þennan síðari áfanga er um 2 milljarðar króna.
 
Einnig er ákveðið að ráðast í verulegar framkvæmdir við stækkun á hrognavinnslunni. Til dæmis þarf að stækka löndunarhús um 300 fermetra og fjárfesta í nýjum búnaði. Gert er ráð fyrir að kostnaður við þær framkvæmdir verði hátt í 500 milljónir króna.

Fyrstu togaralandanir ársins

Nú er landað úr Gullver NS við Strandarbakka á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonNú er landað úr Gullver NS við Strandarbakka á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonÍsfisktogarar Síldarvinnslunnar og Bergs-Hugins komu úr fyrstu veiðiferð ársins í gær og í nótt. Bergey VE kom til hafnar í Vestmannaeyjum í gær með um 60 tonn. Uppistaða aflans var ýsa. Vestmannaey VE kom síðan til löndunar sl. nótt með 55 tonn og var aflinn þar einnig að mestu ýsa. Að sögn Arnars Richardssonar rekstrarstjóra byrjar árið snemma að þessu sinni en í fyrra komust skip Bergs-Hugins ekki á sjó fyrr en 13. janúar vegna veðurs.
 
Gullver NS er að landa á Seyðisfirði í dag. Afli skipsins er 65 tonn og er uppistaðan þorskur og ýsa. Vegna hamfaranna í desember er ekki landað úr skipinu við frystihúsið heldur við Strandarbakka. Er þetta í fyrsta sinn sem fiski er landað þar en ferjan Norræna er afgreidd við Strandarbakka. Að sögn Ómars Bogasonar er gert ráð fyrir að vinnsla í frystihúsinu geti hafist í fyrri hluta næstu viku en unnið er að hreinsunarstarfi á Seyðisfirði af eins miklum krafti og unnt er.

Minni afli hjá ísfisktogurunum en svipaður hjá Blængi

Ísfisktogararnir fiskuðu minna á nýliðnu ári en á árinu 2019. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonÍsfisktogararnir fiskuðu minna á nýliðnu ári en á árinu 2019. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonÍsfisktogarar Síldarvinnslunnar og Bergs-Hugins öfluðu minna á nýliðnu ári en á árinu 2019. Er helsta skýringin minni sókn vegna aðstæðna sem mynduðust á mörkuðum í kjölfar heimsfaraldurs. Hinsvegar er verðmæti aflans stöðugt milli ára. Afli ísfisktogarnna á árinu 2020 og verðmæti afla þeirra var sem hér segir:
 
               Afli                    Verðmæti  
Vestmannaey VE 3.900 tonn 1.170 mkr
Bergey VE 4.450 tonn 1.330 mkr
Gullver NS 5.100 tonn 1.260 mkr
 
Aðra sögu er að segja af frystitogaranum Blængi NK. Afli hans var svipaður á árunum 2019 og 2020 en verðmæti aflans jókst töluvert á milli áranna. Á árinu 2020 fiskaði Blængur 7.050 tonn og nam verðmæti aflans 2.413 milljónum króna.

Gott ár í uppsjávarveiðum

Norðfjarðarhöfn á makrílvertíð sl. sumar. Ljósm. Smári GeirssonNorðfjarðarhöfn á makrílvertíð sl. sumar.
Ljósm. Smári Geirsson
Þrátt fyrir loðnuleysi telst árið 2020 hafa verið gott ár hvað varðar veiðar á uppsjávartegundum. Skip Síldarvinnslunnar, Beitir NK og Börkur NK, öfluðu vel af síld, makríl og kolmunna og sama á við um um Bjarna Ólafsson AK sem er í eigu dótturfélagsins Runólfs Hallfreðssonar ehf. Þá var verð á uppsjávarafurðum gott þannig að afkoman af veiðunum var ágæt. Afli skipanna og aflaverðmæti var sem hér segir:

      Heildarafli              Verðmæti      
 Beitir NK    44.894 tonn 1.929 mkr
Börkur NK 46.918 tonn

1.982 mkr

Bjarni Ólafsson AK 32.034 tonn 1.379 mkr

 

Fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað tók á móti 46.882 tonnum af makríl og síld til vinnslu á nýliðnu ári. Móttekinn makríll nam 23.098 tonnum og móttekin síld 23.784 tonnum. 

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku samtals á móti 123 þúsundum tonnum af uppsjávarfiski. Verksmiðjan í Neskaupstað tók á móti 106 þúsund tonnum og verksmiðjan á Seyðisfirði tók á móti 17 þúsund tonnum af kolmunna.

Skipin á sjó eftir hátíðar

Polar Amaroq í Norðfjarðarhöfn. Skipið heldur væntanlega til loðnuleitar í kvöld. Ljósm. Hákon ErnusonPolar Amaroq í Norðfjarðarhöfn. Skipið heldur væntanlega til loðnuleitar í kvöld. Ljósm. Hákon ErnusonSkip Síldarvinnslunnar og tengdra fyrirtækja hafa nú öll haldið til veiða nema frystitogarinn Blængur NK sem er í slipp á Akureyri og Polar Amaroq sem taka mun þátt í loðnuleit. Kolmunnaskipin Beitir NK og Börkur NK létu úr höfn aðfaranótt sunnudags og Bjarni Ólafsson AK hélt fljótlega í kjölfar þeirra. Börkur og Beitir höfðu kastað í morgun á kolmunnamiðunum suðaustur af Færeyjum en færeysk skip hafa verið þar að veiðum að undanförnu. 
 
Ísfisktogararnir héldu til veiða um helgina. Bergey VE sigldi út úr Vestmannaeyjahöfn á laugardagsmorgun og Vestmannaey VE í gær. Gullver NS hélt frá Seyðisfirði á laugardag.
 
Grænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq heldur væntanlega til loðnuleitar í kvöld. Mun Polar Amaroq leita að loðnu ásamt hafrannsóknaskipunum Bjarna Sæmundssyni og Árna Friðrikssyni og veiðiskipunum Ásgrími Halldórssyni SF og Aðalsteini Jónssyni SU.

Áramót

Áramót

Áramótakveðja til starfsmanna og viðskiptavina

Gunnþór IngvasonGunnþór IngvasonUm áramót notum við gjarnan tækifærið til að líta yfir liðið ár og huga að tækifærum nýs árs.  Það er eflaust mörgum létt við þá tilhugsun að þetta blessaða ár sé senn á enda. Við höfum þurft að lifa við skerðingar á lifnaðarháttum sem að eiga sér vart fordæmi. Það er samt sem áður tilefni til bjartsýni og virðumst við vera farin að sjá ljósið við enda ganganna í baráttunni við þann skæða vágest sem covid 19 er.
 
Faraldurinn hefur haft áhrif á starfsemi og rekstur Síldarvinnslunnar líkt og flestra annarra fyrirtækja. Við störfum á alþjóðlegum mörkuðum og seljum afurðir okkar til fjölmargra landa. Við höfum þurft að aðlaga framleiðslu og sölu á afurðum í takt við breytingar á eftirspurn á mörkuðum.  Sumir markaðir nánast hurfu á meðan aðrir höktu, höggið er mikið á mörkuðum  fyrir fisk sem fer á veitinga- og gististaði í helstu ferðaþjónustulöndunum.
 
Starfsmenn Síldarvinnslunnar hafa mætt þessum áskorunum með þrautseigju. Þeir hafa allir  lagst á eitt og samstaðan hefur verið aðdáunarverð. Starfsmenn hafa þurft að færa miklar fórnir þegar þeir hafa sinnt ýmsum tilmælum. Skerða hefur þurft samgang starfsmanna og vina.  Sjómenn hafa tekið á sig fórnir í lengri útiverum. Starfsmenn hafa fórnað ferðalögum.  Það hafa allir lagt sitt af mörkum.
 
Fyrirhuguð árshátíðarferð til Póllands á haustmánuðum, sem við biðum öll eftir, var blásin af, við munum finna tíma síðar til að gleðjast og fagna saman um leið og tækifæri gefst til.  Við skulum gleðjast þeim mun meira þegar þar að kemur.
 
Árið byrjaði með loðnubresti annað árið í röð sem voru vonbrigði en við bindum miklar vonir við komandi vertíð, enda flest sem bendir til að framundan sé góð loðnuvertíð og við trúum því að markaðirnir bíði eftir afurðunum þannig að það er full ástæða til að vera bjartsýn.  
 
Við héldum áfram að efla og styrkja innviði félagsins með frekari fjárfestingum. Það sem  stendur hæst upp úr í þeim efnum eru kaup dótturfélags okkar Bergs- Hugins ehf á öllu hlutafé í Bergur ehf. Renna þau  kaup  enn sterkari stoðum undir starfsemi okkar  í Vestmannaeyjum. 
 
Þrátt fyrir ýmsar mótbárur þá berum við höfuðið hátt, reksturinn gekk vel þegar leið á árið.  Veiðar og vinnsla uppsjávarfiska gekk vel, markaðir þar voru góðir.  Bolfiskmegin voru meiri brekkur, við þurftum að  draga úr veiðum og vinnslu, frosnar afurðir hafa hlaðist upp en þrátt fyrir það treystum við á bjartari tíma.  
 
Á nýju ári fáum við nýjan Börk sem mun bætist í skipaflota félagsins á fyrri hluta ársins og verður hann í hópi fullkomnustu uppsjávarskipa í heiminum og mun styðja enn við markmið okkar um hagkvæmari skip, minni útblástur og betra hráefni.
 
Á nýju ári eru alþingiskosningar og í aðdraganda þeirra bera málefni sjávarútvegs iðulega á góma. Þjóðhagslegt mikilvægi sjávarútvegs hefur sannað sig á árinu og enn og aftur kemur í ljós að öflugur sjávarútvegur er þjóðhagslega mikilvægur.  Við eigum að sameinast um að tryggja að þessi þjóðarauðlind okkar geti verið undirstaða lífskjara í landinu.  Þrátt fyrir að oft og iðulega sé tekist á um málefni greinarinnar, hef ég fulla trú á því að á komandi ári munum við fá uppbyggilega og málefnalega umræðu um málefni sjávarútvegsins.    Pólitíkusum allra flokka er velkomið að heimsækja Síldarvinnsluna og kynna sér starfsemi hennar á komandi ári.
 
Heimabærinn minn lenti í náttúruhamförum rétt fyrir jól, þar sem fólk þurfti að yfirgefa heimili. Guðs blessun var að engin slys urðu á fólki. Ég óska þess að á nýju ári komi fram trúverðugar áætlanir um varnir fyrir Seyðfirðinga þannig að þeir geti fundið ró í sínum fallega heimabæ, sem ég tel að sé fegursti bær landsins.
 
Ég tel að leiðin fram á við fyrir okkur öll snúist um samstöðu, samheldni og virðingu fyrir hvert öðru.  Því miður þá virðist hið neikvæða, niðurrif og svartýni eiga meira erindi í opinbera umræðu en látum slíkt ekki leiða okkur áfram á nýju ári.
 
Kæru samstarfsmenn, ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegs nýs árs og ég vona að við getum fyrr en síðar átt fleiri samverustundir. 
 
Ég hef oft sagt að árangur Síldarvinnslunnar megi þakka framúrskarandi starfsfólki og öflugum samfélögum sem fyrirtækið starfar í. Það hefur sannnað sig enn og aftur á árinu 2020. Nú tökum við áramótin með okkar nánustu og njótum.
 
Mætum árinu 2021 samstillt og ákveðin í aðlaga okkur að þeim áskorunum sem okkur bíða, snúum bökum saman, gerum okkar besta og bara aðeins betur ef það er það sem þarf.
 
Með þökkum fyrir árið sem er að líða og óskum um gleðilegt ár
 
Sjáumst kát á nýju ári kæru vinir. 
 
Kveðja,
Gunnþór Ingvason
 

Fyrsti túr í skipstjórastólnum

Hjálmar Ólafur BjarnasonHjálmar Ólafur BjarnasonÞegar stóra aurskriðan féll á Seyðisfirði föstudaginn 18. desember sl. voru margir í áhöfn Seyðisfjarðatogarans Gullvers áhyggjufullir en skipið var þá að veiðum á sínum hefðbundnu miðum austur af landinu. Að því kom að skipið var kallað inn og kom það að landi aðfaranótt laugardagsins. Allir Seyðfirðingar í áhöfninni sem þess óskuðu fengu frí en skipið þess í stað mannað Norðfirðingum og það tók nánast örskotsstund að manna skipið. Ætlunin var að fara í stuttan karfatúr. Skipstjóri í þessari veiðiferð var Hjálmar Ólafur Bjarnason og var þetta í fyrsta sinn sem hann settist í skipstjórastól en hann hefur verið stýrimaður á Gullver frá árinu 2017. Hjálmar Ólafur hóf sjómennsku á Barða NK einungis 16 ára að aldri árið 1999 og settist í Stýrimannaskólann árið 2010. Hann lauk síðan stýrimannaprófi árið 2014. Heimasíðan ræddi við Hjálmar Ólaf um þessa fyrstu veiðiferð hans í skipstjórastólnum. „Þetta bar brátt að en hamfarirnar á Seyðisfirði gerðu það að verkum að ég, Norðfirðingurinn, færi með skipið. Markmiðið með veiðiferðinni var að veiða karfa og okkur tókst með herkjum að ná þeim afla sem ætlast var til. Veiðiferðin stóð einungis í um tvo sólarhringa og við reyndum fyrir okkur á hefðbundnum slóðum: Lónsdýpinu, Hornafjarðardýpinu og einnig út á Þórsbanka. Staðreyndin er sú að það voru ekki miklar væntingar um góðan afla. Auðvitað voru það tímamót að fara í sinn fyrsta túr sem skipstjóri og þetta gekk allt saman stórslysalaust,“ segir Hjálmar Ólafur.

Einungis eitt skip á sjó

Vestmannaey VE. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonVestmannaey VE. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonEinungis eitt skip úr flota Síldarvinnslunnar og tengdra fyrirtækja er á sjó nú á milli jóla og nýárs. Það er Vestmannaey VE sem hélt til veiða í gærkvöldi. Heimasíðan ræddi stuttlega við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra í morgun og spurði fyrst út í veðrið. „Það er búinn að vera bölvaður norðan garri. Við erum í Háfadýpinu að veiðum núna og gerum ráð fyrir að fara í land á miðvikudagskvöld. Þetta verða semsagt þrír sólarhringar að veiðum. Við munum svo fagna nýju ári og halda væntanlega á ný til veiða 2. janúar,“ segir Birgir Þór.

 

 

 

Jólakveðja

Jólakveðja

Undirflokkar