
Fyrir liggur að fiskimjölsverksmiðjur á Íslandi eru of margar og mikilvægt að auka hagræðingu í fiskimjölsiðnaðinum. Síldarvinnslan lokaði verksmiðju sinni í Helguvík á síðasta ári og var það liður í hagræðingaraðgerðum. Á Íslandi er búið við þær aðstæður að verksmiðjurnar þurfa að geta unnið mikinn afla á skömmum tíma og er því nauðsynlegt að þær séu afkastamiklar. Einnig eru aðstæður oft þannig að einungis þarf að vinna afskurð frá manneldisvinnslu og til þess þarf ekki afkastamikla verksmiðju heldur er mikilvægt að geta unnið hráefnið jafnóðum. Ákvörðun um stækkun verksmiðjunnar í Neskaupstað og uppsetningu litlu verksmiðjueiningarinnar tekur mið af þessum aðstæðum. Þegar hefur fengist starfsleyfi fyrir verksmiðju í Neskaupstað sem á að geta afkastað 2380 tonnum á sólarhring en gert er ráð fyrir að litla verksmiðjan afkasti 100-380 tonnum. Nú afkastar verksmiðjan í Neskaupstað að hámarki 1400 tonnum á sólarhring.
Hin auknu afköst munu gera kleift að vinna stóra farma á ásættanlegum tíma og litla verksmiðjan verður með sveigjanlegum afköstum þannig að unnt verður að vinna allt hráefni sem ferskast. Með þessu fyrirkomulagi ætti orkunýting að vera eins og best þekkist. Með tilkomu litlu verksmiðjunnar verður lögð áhersla á að auka gæði framleiðslunnar og þróa áfram aðferðir til að framleiða verðmætar próteinríkar afurðir.

Einnig er ákveðið að ráðast í verulegar framkvæmdir við stækkun á hrognavinnslunni. Til dæmis þarf að stækka löndunarhús um 300 fermetra og fjárfesta í nýjum búnaði. Gert er ráð fyrir að kostnaður við þær framkvæmdir verði hátt í 500 milljónir króna.