Vinnsluskip hafa landað rúmlega 6.000 tonnum í frystigeymslurnar á makríl- og síldarvertíðinni

Frá Norðfjarðarhöfn sl. mánudag. Lengst til vinstri er Vilhelm Þorsteinsson EA að landa frosnum afurðum. Næst honum er flutningaskipið Green Explorer sem er að lesta frystan makríl og síld. Þá er Beitir NK að landa til vinnslu í fiskiðjuverinu. Fjærst er Hákon EA að landa afskurði í fiskimjölsverksmiðjuna. Ljósm. Smári GeirssonFrá Norðfjarðarhöfn sl. mánudag. Lengst til vinstri er Vilhelm Þorsteinsson EA að landa frosnum afurðum. Næst honum er flutningaskipið Green Explorer sem er að lesta frystan makríl og síld. Þá er Beitir NK að landa til vinnslu í fiskiðjuverinu. Fjærst er Hákon EA að landa afskurði í fiskimjölsverksmiðjuna. Ljósm. Smári GeirssonHeimir Ásgeirsson yfirverkstjóri í frystigeymslum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað segir að um þessar mundir séu miklar annir hjá starfsmönnunum. „Það er hrikalega mikið að gera og skortur á fólki,“ sagði Heimir. „Það er búið að landa úr vinnsluskipum í frystigeymslurnar rúmlega 6000 tonnum af makríl og síld það sem af er vertíðinni. Uppistaðan í þessu er makríll. Það eru vinnsluskipin Hákon EA og Vilhelm Þorsteinsson EA sem hafa landað mestu en nú er Kristina EA að landa 2000 tonnum. Fyrir utan þetta fara í geymslurnar makríllinn og síldin frá fiskiðjuverinu hérna við hliðina. Það sem af er vertíð er búið að skipa út í flutningaskip um 9000 tonnum. Það var hér skip í byrjun vikunnar sem tók 2600 tonn. Von er á öðru skipi á morgun og því þriðja eftir helgi. Síðan fer mikið af makrílnum og síldinni í gáma sem skipað er út á Reyðarfirði. Það veitir ekki af að útskipanir séu tíðar því framleiðslan er mikil,“ sagði Heimir að lokum.

Samfelld makríl- og síldarvinnsla

Ungir starfsmenn fiskiðjuversins í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonUngir starfsmenn fiskiðjuversins í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonSíðustu tvær vikurnar hefur verið nær samfelld vinnsla á makríl og síld í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu segir að vinnslan hafi gengið vel en bagalegt sé hve mikið af síld sé stundum í aflanum. „Skipin reyna að forðast síldina eins og unnt er en engu að síður eru þau alloft að taka hol með háu síldarhlutfalli. Þessi blandaði afli dregur töluvert úr afköstum í fiskiðjuverinu því það tekur ávallt tíma að skipta úr makrílvinnslu yfir í síldarvinnslu og öfugt. Fyrir utan þetta er engin ástæða til að kvarta,“ sagði Jón Gunnar.
 
Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki sagði í samtali við heimasíðuna að oft væri erfitt að ná hreinum makrílholum um þessar mundir. „Við erum að toga og erum komnir með um 470 tonn. Það er líklega um helmingur aflans síld þrátt fyrir að við reynum að forðast hana sem best við getum. Skipin hafa ekkert verið að toga á nóttunni því þá kemur síldin upp í miklu magni og blandast makrílnum en samt erum við að fá of mikla síld. Kvótinn af síld er lítill og því skiptir svo miklu máli að ná sem hreinustum makrílholum en það er erfitt. Það virðist vera mikið magn af síld hér á ferðinni. Ég reikna með að við komum inn til löndunar í kvöld,“ sagði Hjörvar.
 
Börkur landaði síðast 755 tonnum al. laugardag og sunnudag, þá kom Beitir með 800 tonn og lauk löndun í gær. Nú er verið að landa úr Bjarna Ólafssyni tæpum 500 tonnum.
 

Norðfjarðarflugvöllur verður heilsárs öryggisflugvöllur

                DSC04614 2

Fulltrúar heimamanna undirrita samning. Sitjandi við borðið frá vinstri: Guðmundur R. Gíslason framkvæmdastjóri SÚN, Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri Fjarðabyggðar og Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar. Á bakvið þá standa frá vinstri: Valdimar Hermannsson bæjarfulltrúi, Jón Björn Hákonarson forseti bæjarstjórnar og Eydís Ásbjörnsdóttir bæjarfulltrúi. Ljósm: Smári Geirsson

Í morgun voru undirritaðir samningar um endurbætur á Norðfjarðarflugvelli en sveitarfélagið Fjarðabyggð, Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað og Síldarvinnslan hf. koma að framkvæmdunum með myndarlegum fjárframlögum. Framkvæmdirnar fela í sér að skipt verður um burðarlag vallarins og síðan sett á hann klæðning. Markmiðið með þessum framkvæmdum er að bæta flugvöllinn þannig að hann geti allt árið gegnt hlutverki sjúkraflugvallar fyrir Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað og aukið þannig öryggi íbúanna eystra og allra þeirra sjómanna sem leggja stund á veiðar á Austfjarðamiðum.

                Samningur Innanríkisráðuneytisins og Fjarðabyggðar gerir ráð fyrir að framkvæmdirnar kosti 158 milljónir króna. Á fjárlögum ríkisins er varið 82 milljónum til verksins en heimamenn leggja fram 76 milljónir; sveitarfélagið Fjarðabyggð 26 milljónir og Samvinnufélag útgerðarmanna og Síldarvinnslan samtals 50 milljónir.

DSC04617 2

Innanríkisráðherra og bæjarstjóri Fjarðabyggðar undirrita samning um endurbyggingu Norðfjarðarflugvallar. Ljósm: Smári Geirsson

                Undirritun samninganna fór fram í flugstöðinni á Norðfjarðarflugvelli og sagði Ólöf Nordal innanríkisráðherra við það tilefni að þetta verkefni væri óvenjulegt hvað varðaði þátttöku heimamanna í fjármögnun þess. Þá benti ráðherrann á að með auknum ferðamannastraumi gæti öryggisflugvöllur eins og Norðfjarðarflugvöllur gegnt sífellt mikilvægara hlutverki.  Jón Karl Ólafsson framkvæmdastjóri Isavia tók undir orð ráðherra og taldi að þeir samningar sem undirritaðir voru í morgun gætu orðið fyrirmynd annarra samninga og eins benti hann á að í framtíðinni lægju margvísleg tækifæri í góðum flugvelli.

                Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri og Jón Björn Hákonarson forseti bæjarstjórnar  fögnuðu mjög undirritun samninganna ásamt fulltrúum Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Lesin var upp bókun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar þar sem fram kom að það skyti skökku við að á sama tíma og verið væri að tryggja heilsárs öryggisflugvöll á Austurlandi væri öryggisflugbraut lokað á flugvellinum í Reykjavík.

                Héraðsverk mun vinna að framkvæmdunum við flugvöllinn en þær voru boðnar út og mun Isavia annast umsjón með þeim. Munu undirbúningsframkvæmdir hefjast í vetur en ráðgert er að framkvæmdum ljúki í júlí á næsta ári.