Framkvæmdum við saltfiskskemmuna lokið

Fremst er saltfiskskemman, fjær má sjá skreiðarskemmuna í Síldarvinnslulitunum og fjærst sést gamla frystihúsið. Ljósm. Smári GeirssonFremst er saltfiskskemman, fjær má sjá skreiðarskemmuna í Síldarvinnslulitunum
og fjærst sést gamla frystihúsið. Ljósm. Smári Geirsson
Lokið er við að skipta um klæðningu á svonefndri saltfiskskemmu í Neskaupstað og er húsið nú orðið til fyrirmyndar. Klæðningin er að sjálfsögðu í Síldarvinnslulitunum og er útlit skemmunnar sambærilegt við útlit hinnar svonefndu skreiðarskemmu sem skipt var um klæðningu á fyrir nokkru. Þessi tvö hús voru svo sannarlega farin að láta á sjá en nú eru þau til prýði. Það var Nestak hf. sem annaðist framkvæmdirnar við saltfiskskemmuna.
 
Saga saltfiskskemmunnar er merk en hún var reist sem síldarverksmiðja á árunum 1966-1967. Það var hlutafélagið Rauðubjörg sem byggði verksmiðjuna. Síldarvinnslan festi kaup á byggingunni árið 1973 og hóf þar saltfiskverkun árið eftir. Saltfiskverkunin var fjölmennur vinnustaður og störfuðu þar allt að 120 manns yfir sumartímann í nokkur ár. Skemman hýsti saltfiskverkun til ársins 1997 og í henni var einnig söltuð síld á árunum 1986-1997. Hin síðari ár hefur saltfiskskemman verið nýtt sem geymsluhúsnæði rétt eins og skreiðarskemman. 

Dauft yfir síldveiðunum fyrir vestan

Börkur NK. Ljósm: Hákon ErnusonBörkur NK. Ljósm: Hákon ErnusonBörkur NK hélt vestur fyrir land á laugardagskvöld til veiða á íslenskri sumargotssíld. Heimasíðan sló á þráðinn í morgun og ræddi við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra. „Það er heldur lítið að frétta af okkur og hér er lítið að sjá,“ sagði Hálfdan. Við höfum verið djúpt út af Faxaflóa, um 100 mílur vestur af Garðskaga, og erum komnir með 200 tonn í þremur holum. Hér hafa skip verið að fá upp í 170 tonn í holi og það er það allra mesta. Hér er heldur dauft hljóð í mönnum sem stendur, það er enginn kraftur í þessu. Núna er hálfgerð bræla, en það ætti að verða í lagi með veðrið þegar líður á daginn,“ sagði Hálfdan að lokum.

Síldarvinnslan hlýtur umhverfisviðurkenningu Fjarðabyggðar

SVN Fulltrúar Síldarvinnslunnar sem veittu umhverfisviðkenningu Fjarðabyggðar móttöku. Ljósm. Smári GeirssonFulltrúar Síldarvinnslunnar sem veittu umhverfisviðurkenningu
Fjarðabyggðar móttöku. Ljósm. Smári Geirsson
Síldarvinnslan hlaut í dag umhverfisviðurkenningu Fjarðabyggðar 2016 en þetta er í fyrsta sinn sem sveitarfélagið veitir slíka viðurkenningu. Það var Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri sem veitti viðurkenninguna við athöfn sem fram fór í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði. Umhverfisviðurkenning var veitt í þremur flokkum og hlaut Síldarvinnslan hana í flokki fyrirtækja.
 
Auglýst var eftir tilnefningum til viðurkenninga í ágúst og september og var öllum sem áttu lögheimili í Fjarðabyggð heimilt að senda inn tilnefningar. Sérstök dómnefnd fékk það hlutverk að fjalla um tilnefningarnar og leggja mat á þær. Í dómnefndinni áttu sæti Freyr Ævarsson umhverfisfulltrúi Fljótsdalshéraðs, Sveinbjörn Hrafn Kristjánsson starfsmaður áhaldahúss Fljótsdalshéraðs og Anna Heiða Gunnarsdóttir garðyrkjufræðingur á Reyðarfirði. 
 
Í umsögn dómnefndarinnar segir eftirfarandi um umhverfi Síldarvinnslunnar: „Viðurkenningin er veitt fyrir sérlega snyrtilegt umhverfi. Ásýnd húss og vinnusvæðis er stílhreint og öll umgengni til fyrirmyndar.“ Þá segir einnig í umsögninni að blómaker séu skemmtileg í stíl við húsnæði fyrirtækisins og mikið lagt í að viðhalda svæðinu snyrtilegu, blómabeðum og grasfleti. Þá er það mat dómnefndarinnar að fyrirtækið leggi sjáanlega mikinn metnað í blómlega og fallega ásýnd á starfssvæði sínu. 
 
Stefnt er að því að Fjarðabyggð veiti umhverfisviðurkenningu árlega hér eftir. 
Athafnasvæði Síldarvinnslunnar við Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hlynur SveinssonAthafnasvæði Síldarvinnslunnar við Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hlynur Sveinsson