Bjartur NK í sinni síðustu veiðiferð áður en hann verður afhentur írönskum kaupanda

Joi

Jóhannes Sveinbjörnsson verkstjóri búinn að gera Bjart kláran í síðustu veiðiferðina hér við land. Ljósm: Guðjón B. Magnússon

                Bjartur NK hélt til veiða í gærmorgun. Er þetta síðasta veiðiferðin sem skipið heldur í hér við land, en ráðgert er að afhenda hann írönskum kaupanda í Reykjavík um næstu mánaðamót. Það ríkti sérstök stemmning þegar skipið var búið í veiðiferðina en Bjartur hefur verið gerður farsællega út frá Neskaupstað frá árinu 1973. Bjartur er einn af hinum svonefndu Japanstogurum og var hann smíðaður fyrir Síldarvinnsluna í Niigata, hleypt af stokkunum þar hinn 25. október 1972 og afhentur Síldarvinnslunni 12. janúar 1973. Til heimahafnar í Neskaupstað kom hann í fyrsta sinn 2. mars 1973 eða fyrir liðlega fjörutíu og þremur árum.

Steini á Mel

Steinþór Hálfdanarson skipstjóri í brúnni á Bjarti fyrir síðustu veiðiferðina. Ljósm: Guðjón B. Magnússon

                Skipstjóri á Bjarti í þessari síðustu veiðiferð er  Steinþór Hálfdanarson. Heimasíðan hafði samband við hann í morgun en þá var verið að toga í Berufjarðarál. „Hér er blessuð blíðan og algert stafalogn. Það er virkilega gott að taka síðasta túrinn á Bjarti í svona veðri. Við áætlum að koma í land um hádegi á sunnudag og þá kveðja menn um borð skipið með söknuði,“ sagði Steinþór.

Bjartur 28.8.16

Bjartur siglir út Norðfjörð í sína síðustu veiðiferð hér við land. Ljósm: Guðbjón B. Magnússon

                Sérstaklega verður fjallað um útgerðarsögu Bjarts hér á heimasíðunni þegar hann siglir út Norðfjörð í hinsta sinn á vit nýrra ævintýra. 

Vinnsluskip hafa landað rúmlega 6.000 tonnum í frystigeymslurnar á makríl- og síldarvertíðinni

Frá Norðfjarðarhöfn sl. mánudag. Lengst til vinstri er Vilhelm Þorsteinsson EA að landa frosnum afurðum. Næst honum er flutningaskipið Green Explorer sem er að lesta frystan makríl og síld. Þá er Beitir NK að landa til vinnslu í fiskiðjuverinu. Fjærst er Hákon EA að landa afskurði í fiskimjölsverksmiðjuna. Ljósm. Smári GeirssonFrá Norðfjarðarhöfn sl. mánudag. Lengst til vinstri er Vilhelm Þorsteinsson EA að landa frosnum afurðum. Næst honum er flutningaskipið Green Explorer sem er að lesta frystan makríl og síld. Þá er Beitir NK að landa til vinnslu í fiskiðjuverinu. Fjærst er Hákon EA að landa afskurði í fiskimjölsverksmiðjuna. Ljósm. Smári GeirssonHeimir Ásgeirsson yfirverkstjóri í frystigeymslum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað segir að um þessar mundir séu miklar annir hjá starfsmönnunum. „Það er hrikalega mikið að gera og skortur á fólki,“ sagði Heimir. „Það er búið að landa úr vinnsluskipum í frystigeymslurnar rúmlega 6000 tonnum af makríl og síld það sem af er vertíðinni. Uppistaðan í þessu er makríll. Það eru vinnsluskipin Hákon EA og Vilhelm Þorsteinsson EA sem hafa landað mestu en nú er Kristina EA að landa 2000 tonnum. Fyrir utan þetta fara í geymslurnar makríllinn og síldin frá fiskiðjuverinu hérna við hliðina. Það sem af er vertíð er búið að skipa út í flutningaskip um 9000 tonnum. Það var hér skip í byrjun vikunnar sem tók 2600 tonn. Von er á öðru skipi á morgun og því þriðja eftir helgi. Síðan fer mikið af makrílnum og síldinni í gáma sem skipað er út á Reyðarfirði. Það veitir ekki af að útskipanir séu tíðar því framleiðslan er mikil,“ sagði Heimir að lokum.

Samfelld makríl- og síldarvinnsla

Ungir starfsmenn fiskiðjuversins í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonUngir starfsmenn fiskiðjuversins í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonSíðustu tvær vikurnar hefur verið nær samfelld vinnsla á makríl og síld í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu segir að vinnslan hafi gengið vel en bagalegt sé hve mikið af síld sé stundum í aflanum. „Skipin reyna að forðast síldina eins og unnt er en engu að síður eru þau alloft að taka hol með háu síldarhlutfalli. Þessi blandaði afli dregur töluvert úr afköstum í fiskiðjuverinu því það tekur ávallt tíma að skipta úr makrílvinnslu yfir í síldarvinnslu og öfugt. Fyrir utan þetta er engin ástæða til að kvarta,“ sagði Jón Gunnar.
 
Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki sagði í samtali við heimasíðuna að oft væri erfitt að ná hreinum makrílholum um þessar mundir. „Við erum að toga og erum komnir með um 470 tonn. Það er líklega um helmingur aflans síld þrátt fyrir að við reynum að forðast hana sem best við getum. Skipin hafa ekkert verið að toga á nóttunni því þá kemur síldin upp í miklu magni og blandast makrílnum en samt erum við að fá of mikla síld. Kvótinn af síld er lítill og því skiptir svo miklu máli að ná sem hreinustum makrílholum en það er erfitt. Það virðist vera mikið magn af síld hér á ferðinni. Ég reikna með að við komum inn til löndunar í kvöld,“ sagði Hjörvar.
 
Börkur landaði síðast 755 tonnum al. laugardag og sunnudag, þá kom Beitir með 800 tonn og lauk löndun í gær. Nú er verið að landa úr Bjarna Ólafssyni tæpum 500 tonnum.