Togarafjöldi á Austfjarðamiðum

Barði NK. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK. Ljósm. Hákon ErnusonÞessa dagana er mikill fjöldi fiskiskipa á Austfjarðamiðum. Þegar staðan var könnuð í gær voru þar ísfisktogararnir Ljósafell, Barði, Gullver, Drangavík, Brynjólfur, Suðurey og Múlaberg ásamt frystitogurunum Þerney, Höfrungi III, Kleifabergi, Sigurbjörgu og Hrafni Sveinbjarnarsyni. Auk þessara togara var tugur línubáta á miðunum. Ástæðan fyrir þessum mikla togarafjölda eystra er sú að allir eru þeir að keppast við að veiða annað en þorsk og meiri líkur eru taldar á að fá ufsa, karfa og grálúðu á Austfjarðamiðum en annars staðar.
 
Barði NK kom til Neskaupstaðar í gær og var afli skipsins 100 tonn, þar af 70 tonn þorskur. Jóhann Örn Jóhannsson skipstjóri sagði að mikið hefði verið haft fyrir að veiða annað en þorsk í túrnum. Byrjað var vestur á Öræfagrunni, síðan haldið á Stokksnesgrunn og þá reynt fyrir sér í Lónsdýpi, Berufjarðarál og Utanfótar. Loks var haldið norður í Seyðisfjarðardýpi og endað á Digranesflakinu. Allan tímann var reynt að veiða annað en þorsk en árangurinn var takmarkaður. Á miðunum norður frá var nóg af þorski að hafa og þar fékk Barði drjúgan hluta af sínum afla. Aðspurður sagði Jóhann að mönnum væri ekkert alltof vel við að hafa allan þennan togaraflota eystra, menn vildu helst hafa frið á sínum hefðbundnu miðum en því væri ekki alltaf að heilsa.
 
Barði heldur á ný til veiða í kvöld.

Síldarvinnsluskipin hafa lokið veiðum á íslenskri sumargotssíld

Skip Síldarvinnslunnar, Beitir NK og Börkur NK, hafa lokið veiðum á íslenskri sumargotssíld að þessu sinni. Beitir kom með 700 tonn til Neskaupstaðar síðastliðinn föstudag og Börkur með 800 tonn aðfaranótt laugardags. Eins og áður fór allur afli skipanna til manneldisvinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar.
 
Heimasíðan hafði samband við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki og spurði hann hvernig vertíðin hefði verið. „Vertíðin var frekar slök miðað við undanfarin ár. Síldin virðist ekki enn komin í vetursetu og torfumyndun varla hafin. Hún er dreifð og sennilega höfum við alls ekki fundið megnið af síldinni. Spurningin er bara hvar hún heldur sig. Þessi síld er þekkt fyrir að breyta um hegðun með reglulegu millibili og kannski er eitthvað slíkt að gerast núna,“sagði Hjörvar. „Vissulega náðu menn að fiska sinn kvóta en það tók lengri tíma en áður. Í fyrra voru menn sjaldnast á miðunum lengur en í einn og hálfan sólarhring og höfðu þá fengið góðan afla en nú tók þetta miklu lengri tíma og var erfiðara,“ sagði Hjörvar að lokum.
 
Beitir hélt til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni í fyrrakvöld og Börkur sigldi í kjölfar hans í dag. Ágæt kolmunnaveiði hefur verið við Færeyjar að undanförnu.
 

Bergey VE rýfur 4000 tonna múrinn

Bergey 4000 2.12.2016 09-59-15

Áhöfn Bergeyjar fagnaði góðri veiði á árinu með tertuveislu í morgun. Á myndinni er Jón Valgeirsson skipstjóri að skera tertuna. Ljósm.: Guðmundur Alfreðsson.

                Bergey VE landaði í Vestmannaeyjum sl. miðvikudag og þar með var afli skipsins á árinu kominn yfir 4000 tonn. Það er mesti afli sem skipið hefur borið að landi á einu ári og desemberaflinn á eftir að bætast þar við.  Næstmesti ársafli Bergeyjar var í fyrra en þá fiskaði skipið 3660 tonn. Í tilefni af því að 4000 tonna múrinn var rofinn sló heimasíðan á þráðinn til Jóns Valgeirssonar skipstjóra. „Það hefur gengið vel hjá okkur á árinu og því getum við þakkað frábærri áhöfn og frábæru fyrirtæki,“ sagði Jón. „ Aflinn á árinu er að uppistöðu til ýsa, ufsi, karfi og þorskur og í reynd erum við stærstan hluta ársins að eltast við ýsu. Veiðisvæðið okkar er fyrst og fremst við suðurströndina og síðan er farið austur fyrir land. Við höfum sáralítið farið vestur á þessu ári. Við löndum oftast í Eyjum en eins höfum við landað nokkuð á Seyðisfirði. Þegar vel fiskast reynir mikið á mannskapinn um borð og á Bergey er súpermannskapur. Við erum nokkrir í áhöfninni sem höfum verið á skipinu frá upphafi og aðrir hafa verið lengi. Þeir sem koma hér um borð klára yfirleitt sjómannsferilinn hérna  -  þeir fara ekkert annað. Á Bergey er ánægður mannskapur og andinn um borð er eins og best gerist,“ sagði Jón Valgeirsson að lokum.

Birgir Þór Sverrisson skipstjóri á Vestmannaey tilbúinn að skera tertuna þegar áhöfnin fagnaði góðum árangri á árinu. Ljósm.: Guðmundur Alfreðsson.

                Það er Bergur-Huginn í Vestmannaeyjum sem gerir Bergey út en Bergur-Huginn er í eigu Síldarvinnslunnar. Auk Bergeyjar gerir Bergur-Huginn út Vestmannaey VE og hefur einnig fiskast afar vel á það skip á árinu. Afli Vestmannaeyjar nú um mánaðamótin var 3800 tonn en skipið var frá veiðum um tíma fyrr á árinu vegna viðhalds. Aflaverðmæti hvors skips það sem af er ári er yfir einn milljarður og verður það að teljast góður árangur. Þó ber að hafa í huga að vegna gengisþróunar og ástands á mörkuðum er aflaverðmæti skipanna minna en í fyrra þrátt fyrir meiri afla.

                Í morgun fagnaði áhöfn Bergeyjar góðu aflaári með tertuveislu og upp úr hádeginu var samsvarandi veisla um borð í Vestmannaey.