Barði NK á ísfisk

Barði NK. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK hélt til Akureyrar í lok ágústmánaðar þar sem starfsmenn Slippsins hófu að fjarlægja úr honum vinnslubúnað á vinnsluþilfari og koma síðan fyrir búnaði til meðhöndlunar á ísfiski. Barða er ætlað að taka við hlutverki ísfisktogarans Bjarts sem seldur var til íransks fyrirtækis fyrir skömmu. Framkvæmdirnar um borð í Barða gengu samkvæmt áætlun og er hann væntanlegur til Neskaupstaðar í dag. Síðan er ráðgert að hann haldi til veiða á laugardaginn. Áhöfnin á Bjarti mun færast yfir á Barða en áhöfnin sem var á Barða mun færast yfir á frystitogarann Blæng. Blængur er nú á Akureyri þar sem starfsmenn Slippsins vinna við að koma fyrir í honum vinnslubúnaði á vinnsluþilfari.

Síldarvinnslan eykur eignarhlut sinn í Runólfi Hallfreðssyni ehf.

Bjarni Ólafsson AK. Ljósm. Smári GeirssonBjarni Ólafsson AK. Ljósm. Smári GeirssonSíldarvinnslan hefur aukið eignarhlut sinn í útgerðarfélaginu Runólfi Hallfreðssyni ehf. sem gerir út uppsjávarskipið Bjarna Ólafsson AK. Nú á Síldarvinnslan rúmlega 75% í félaginu en bræðurnir og skipstjórarnir Gísli og Runólfur Runólfssynir eiga tæplega 25%.
 
Stofnendur útgerðarfélagsins voru hjónin Runólfur Hallfreðsson og Ragnheiður Gísladóttir en þegar þau voru fallin frá áttu börn þeirra 62% í félaginu. Þrjú barnanna ákváðu að selja sína eignarhluta í félaginu nú í haust og festi Síldarvinnslan kaup á þeim, en Síldarvinnslan hefur átt 38% í félaginu frá árinu 2003 eða frá samrunanum við SR-mjöl. 
 
Gísli Runólfsson segir að ánægja ríki með þessi málalok. „Við höfum verið að vinna með Síldarvinnslunni um langt skeið og það samstarf hefur verið afar gott og farsælt. Við bræðurnir og áhöfnin á Bjarna Ólafssyni teljum að það hafi vart verið hægt að hugsa sér betri niðurstöðu. Þetta tryggir að Bjarni Ólafsson verði gerður út með líkum hætti og hefur verið og allt samstarf um útgerð hans hefur verið traust og til fyrirmyndar að mínu mati,“ sagði Gísli.

Beitir og Börkur ljúka makrílveiðum í Smugunni

Beitir NK. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK hélt í Smuguna til makrílveiða sl. fimmtudagdag. Hann er væntanlegur til Neskaupstaðar í dag með 1200 tonn af makríl sem fengust í sex holum. Sturla Þórðarson skipstjóri sagði að lítið hefði fengist í tveimur fyrstu holunum en þá var keyrt 40 mílur í norður og þar reyndist vera gott lóð. Aflinn fékkst að mestu um 12 mílur frá norsku línunni og gekk makríllinn í norðaustur. Að sögn Sturlu er þetta þokkalegur fiskur, að meðaltali 420-430 grömm. Siglingin heim af miðunum er um 380 mílur.
Börkur NK lagði af stað í Smuguna í gær. Að loknum þessum veiðiferðum munu skipin snúa sér að síldveiðum.
 
Bjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar í morgun með 250 tonn af síld þannig að vinnsla er hafin í fiskiðjuverinu að loknu vel þegnu helgarfríi.