Síldarvinnslan hlýtur umhverfisviðurkenningu Fjarðabyggðar

SVN Fulltrúar Síldarvinnslunnar sem veittu umhverfisviðkenningu Fjarðabyggðar móttöku. Ljósm. Smári GeirssonFulltrúar Síldarvinnslunnar sem veittu umhverfisviðurkenningu
Fjarðabyggðar móttöku. Ljósm. Smári Geirsson
Síldarvinnslan hlaut í dag umhverfisviðurkenningu Fjarðabyggðar 2016 en þetta er í fyrsta sinn sem sveitarfélagið veitir slíka viðurkenningu. Það var Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri sem veitti viðurkenninguna við athöfn sem fram fór í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði. Umhverfisviðurkenning var veitt í þremur flokkum og hlaut Síldarvinnslan hana í flokki fyrirtækja.
 
Auglýst var eftir tilnefningum til viðurkenninga í ágúst og september og var öllum sem áttu lögheimili í Fjarðabyggð heimilt að senda inn tilnefningar. Sérstök dómnefnd fékk það hlutverk að fjalla um tilnefningarnar og leggja mat á þær. Í dómnefndinni áttu sæti Freyr Ævarsson umhverfisfulltrúi Fljótsdalshéraðs, Sveinbjörn Hrafn Kristjánsson starfsmaður áhaldahúss Fljótsdalshéraðs og Anna Heiða Gunnarsdóttir garðyrkjufræðingur á Reyðarfirði. 
 
Í umsögn dómnefndarinnar segir eftirfarandi um umhverfi Síldarvinnslunnar: „Viðurkenningin er veitt fyrir sérlega snyrtilegt umhverfi. Ásýnd húss og vinnusvæðis er stílhreint og öll umgengni til fyrirmyndar.“ Þá segir einnig í umsögninni að blómaker séu skemmtileg í stíl við húsnæði fyrirtækisins og mikið lagt í að viðhalda svæðinu snyrtilegu, blómabeðum og grasfleti. Þá er það mat dómnefndarinnar að fyrirtækið leggi sjáanlega mikinn metnað í blómlega og fallega ásýnd á starfssvæði sínu. 
 
Stefnt er að því að Fjarðabyggð veiti umhverfisviðurkenningu árlega hér eftir. 
Athafnasvæði Síldarvinnslunnar við Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hlynur SveinssonAthafnasvæði Síldarvinnslunnar við Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hlynur Sveinsson

Síldveiði er enn fyrir austan

Síldarvinnsluskipin Beitir og Börkur leggja enn stund á síldveiðar austur af landinu og allur aflinn fer til manneldisvinnslu í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Lokið var við að landa tæplega 1000 tonnum úr Berki í fyrradag og í gær kom Beitir með tæplega 900 tonn.
 
Afli skipanna er blanda af norsk-íslenskri síld og íslenskri sumargotssíld. Hlutfall sumargotssíldarinnar hefur farið vaxandi og um þessar mundir er hún um helmingur aflans.
 
Sturla Þórðarson, skipstjóri á Beiti, segir að um sé að ræða hina þokkalegustu síld. „Við fengum síldina núna í Reyðarfjarðardýpi og Seyðisfjarðardýpi. Við enduðum í Seyðisfjarðardýpinu um 60 mílur frá landi og þar var töluvert að sjá þegar farið var í land,“ sagði Sturla. 

Fleiri kíló, færri krónur

Gullver NS. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS. Ljósm. Ómar BogasonVinnsla hjá Gullberg ehf. á Seyðisfirði hefur gengið vel það sem af er ári og nú annað árið í röð stefnir í metframleiðslu hjá starfsmönnum þar.  Á fyrstu 9 mánuðum ársins hafa verið unnin 2.700 tonn sem er aukning um 200 tonn  á milli ára. Til samanburðar þá var aðeins unnið úr 1.300 tonnum árið 2014 á Seyðisfirði og því er um að ræða rúmlega tvöföldun á magni frá þeim tíma.
 
Sömu sögu er að segja af togaranum Gullver NS en hann hefur veitt 3.250 tonn á fyrstu 9 mánuðum ársins til samanburðar við 3.000 tonn árið áður. Þrátt fyrir að meiri afli fari í gegnum húsið og togarinn fiski meira þá hafa tekjur fyrirtækisins minnkað á milli ára. Togarinn, sem fiskað hefur 250 tonnum meira á þessu ári en árið áður, er með 70 milljóna kr minna aflaverðmæti. Segja má að samdrátturinn í aflaverðmæti endurspegli í raun þá breytingu sem hefur verið að eiga sér stað í rekstrarumhverfi Gullbergs ehf. Þannig hefur afurðaverð bolfisks verið að gefa töluvert eftir í erlendri mynt og síðan bætist styrking krónunnar þar við. Þrátt fyrir aukningu á unnu magni þá hefur afkoman dregist saman. Þannig var rekstrarhagnaður fyrstu sex mánuði sl. árs 218 milljónir króna en í ár er hann einungis 120 milljónir.
 
Gullver NS hefur í áratugi skapað sér sérstöðu á karfamörkuðum í Þýskalandi fyrir afhendingaröryggi og gæði hráefnis. Við lokun Rússlandsmarkaðar, sem hafði tekið við 7.000 tonnum af karfa árið 2014, fór karfi að streyma í auknu magni til Þýskalands og annara landa. Nú á þessu ári hefur magnið aukist um 40% miðað við sama tíma í fyrra og verðið lækkað um 30% í krónum talið.  Einnig hefur Rússabannið breytt veiðistýringu flotans í karfa. Afli ísfisktogara hefur aukist um 20% en afli frystitogara aftur á móti dregist saman.